Mikilvægt að læknar tali íslensku

Ritstjórar Handbókar í lyflæknisfræði: Sigurður Ólafsson, Davíð O. Arnar, Runólfur …
Ritstjórar Handbókar í lyflæknisfræði: Sigurður Ólafsson, Davíð O. Arnar, Runólfur Pálsson og Ari J. Jóhannesson. Rax / Ragnar Axelsson

„Það er mikilvægt að læknar hugsi og tali á íslensku,“ segir Ari J. Jóhannesson, einn af fjórum ritstjórum Handbókar í lyflæknisfræði, sem kom út á dögunum. Þess vegna var lögð mikil  áhersla á að hafa fagorð og önnur hugtök á íslensku í bókinni og móðurmálið hlýtur fyrir vikið veglegan sess. 

Annar ritstjóri bókarinnar, Runólfur Pálsson, hnykkir á þessu. „Þetta hefur verið keppikefli hjá okkur Ara síðan við tókum fyrst við þessu verkefni og stærsta skrefið er stigið með þessari útgáfu. Þegar ég var í framhaldsnámi í Bandaríkjunum þótti mér sláandi hversu lítill munur var á málinu sem læknar töluðu annars vegar sín á milli og hins vegar við sjúklinga og aðstandendur. Við höfum átt erfitt uppdráttar hér gegnum árin þar sem íslenskan hefur ekki búið yfir nægilega miklum orðaforða. Það hefur þó verið að lagast og sennilega er útgáfa þessarar bókar eitt stærsta skrefið í því sambandi. Þetta er mjög jákvætt hvað almenning snertir og hvetur um leið lækna til að bæta sig í samskiptum við sjúklinga,“ segir Runólfur.


Ari bætir við að nokkur orð sem þegar sé farið að nota víðar hafi beinlínis orðið til við gerð bókarinnar. „Hlutverk okkar var að samræma texta milli einstakra kafla og taka um leið ákvörðun um notkun tiltekinna orða. Þar sem orðin eru ný eða framandi setjum við ensk heiti í sviga fyrir aftan til að taka af öll tvímæli,“ segir Ari.

Nánar er fjallað um útgáfuna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert