Nakti maðurinn sem hjólaði um miðbæinn og kom meðal annars við á Austurvelli þar sem viðburðurinn „Frelsum geirvörtuna- Berbrystingar Sameinumst!“ stóð yfir tengdist viðburðinum ekkert, heldur var um upptöku á ótengdri auglýsingu að ræða.
Var verið að taka upp auglýsingu fyrir FÍB, en félagið vill vekja athygli á umferðaöryggi hjólreiðamanna og minna ökumenn að taka eftir þeim í umferðinni. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að auglýsingin hafi verið í undirbúningi í nokkurn tíma og að ákveðið hafi verið að nota góða veðrið í dag til töku. Það hafi verið alveg óháð frelsum geirvörtuna viðburðinum og kom málið nokkuð flatt upp á hann þegar blaðamaður spurði hvort einhver tenging hefði verið þarna á milli. „Tökurnar höfðu ekkert með það að gera,“ segir hann.
Runólfur taldi að búið hafi verið að láta lögregluna vita af málinu og þeir því meðvitaðir um uppátækið. Lögreglan lét engu að síður vita af því í tilkynningu til fjölmiðla í dag. Þá tekur hann jafnframt fram að maðurinn hafi ekki verið alveg nakinn og að ekki sé hugmyndin að birta hann nakinn í auglýsingunum. Yfirskrift þeirra verður „af hverju þarf að vera nakinn til að fá athygli,“ að sögn Runólfs og á að vísa til þess að allir eigi að fá jafn mikla athygli í umferðinni.
Mbl.is barst myndband frá vegfaranda sem náði athæfinu á mynd, en þar sést nakti hjólreiðamaðurinn hjóla um nakinn. Á eftir honum keyrir svo fjórhjól með upptökumanninum.