Lagasetning til að fresta verkföllum skapar mikla reiði og niðurlægir starfsfólk. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, í samtali við mbl.is, en frumvarp þess efnis er nú til umræðu á Alþingi. BHM mætti á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun og lagði fram hugmyndir sínar um málið, en það var seinna um daginn afgreitt úr nefndinni án breytinga.
Þórunn segir að svo virðist sem meirihlutinn hafi ekki tekið mark á því sem stéttarfélögin sögðu og þeim athugasemdum sem gerðar voru við frumvarpið. Hún segir að nú fari málið sína hefðbundnu leið í þinginu, en að hún og aðrir í BHM muni þiggja tækifærið og hugsa sinn gang á morgun, en hittast svo á mánudaginn.
„Þetta er versta mögulega niðurstaða og leysir engan vanda, sérstaklega ekki ríkisins sem vinnuveitenda,“ segir Þórunn og bætir við að þetta komi illa við fólk. „Þetta hefur skapað mikla reiði og fólk lítur á þessa lagasetningu sem niðurlægingu, það kann aldrei góðri lukku að stýra.“