Slógu brautarmet í Bláa lóns þraut

Við upphaf keppninnar í dag í Hafnarfirði.
Við upphaf keppninnar í dag í Hafnarfirði. Eggert Jóhannesson

María Ögn Guðmundsdóttir, hjólreiðakona í HFR, sló brautarmet í Bláa lóns þrautinni um rúmlega fjórar mínútur í dag, en hún hjólaði kílómetrana 48 á 1:55:47. Fyrstu í karlaflokki var Daninn Søren Nissen, en hann fór leiðina á 1:39:47.

Ingvar Ómarsson var fyrstur Íslendinga og annar í karlaflokki, en hann fór leiðina á 1:43:13.

Alls tóku um 650 manns þátt í keppninni í ár, en það er metþátttaka. Hafsteinn Ægir Geirsson, sem er tengiliður keppninnar, segir  að aðstæður hafi verið hagstæðar til þess að ná miklum hraða og brautin almennt góð. Þá hafi tímarnir í ár einnig verið mjög góðir, en eins og fyrr segir var brautarmetið í bæði karla- og kvennaflokki slegið.

Bandaríska hjólreiðakonan Katie Compton kom til landsins sérstaklega til að taka þátt í keppninni, en hún er margfaldur heimsmeistari kvenna í cyclocross og þótti fyrir keppnina vera líklegust til að vinna kvennaflokkinn. Hún kom í mark á tímanum 2:20:27.

Hægt er að fylgjast með niðurstöðu keppninnar á heimasíðu Thrico, en tímar eru uppfærðir eftir því sem fólk kemur í mark.

María Ögn Guðmundsdóttir hjólreiðakona. Myndin er frá í fyrra.
María Ögn Guðmundsdóttir hjólreiðakona. Myndin er frá í fyrra. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert