Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis afgreiddi í hádeginu frumvarp ríkisstjórnarinnar um frestun verkfalla BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þetta segir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.
Málinu var vísað til nefndarinnar eftir fyrstu umræðu um það á Alþingi klukkan tíu í gærkvöldi. Nefndin kom saman klukkan hálfníu í morgun og samþykkti meirihluti hennar frumvarpið nánast óbreytt.
„Við gerðum aðeins eina breytingu, tæknilega, en engar efnislegar breytingar,“ segir hún.
Nú þurfi að gefa minnihluta nefndarinnar tíma til að skrifa nefndarálit sitt. Áætlað var að þingfundur myndi hefjast klukkan tvö í dag, þar sem önnur umræða um frumvarpið færi fram, en Unnur Brá segir líklegt að það muni frestast eitthvað.
Frétt mbl.is: Funda um verkfallsfrumvarp