Full ástæða til að láta reyna á málsókn

Hjúkrunarfræðingar og félagsmenn BHM mótmæltu fyrir utan þinghúsið á föstudaginn.
Hjúkrunarfræðingar og félagsmenn BHM mótmæltu fyrir utan þinghúsið á föstudaginn. mbl.is/Styrmir Kári

BHM mun leita réttar síns vegna lagasetningar á verkfall félagsins sem samþykkt var á Alþingi í gær og líklega mun Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga feta í sömu fótspor. Eins og fram hefur komið telja BHM og FÍH að lagasetningin fari gegn stjórn­ar­skránni og Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Lára V. Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður og sérfræðingur í vinnurétti, segir það rétt en í stjórnarskrá kveður á um það að fólk eigi rétt á því að semja um laun sín og kjör.

Aðspurð hvort að sú staða sem komin er upp í dag eigi sér fordæmi bendir Lára á Hæstaréttadóm sem gekk árið 2002. Málin séu samskonar. „Þá var dæmt vegna lagasetningar á sjómannaverkfallið það sama ár,“ segir Lára. „Hæstiréttur komst þá að þeirri niðurstöðu að sú lagasetning hafi verið réttlætanlegt. En það eru fordæmi fyrir því að verkföll hafi verið kærð til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar en það er dálítið langt síðan og það var á þeim tíma sem lögin um Mannréttindasáttmála Evrópu höfðu hér ekki lagagildi.“

Verkfallsrétturinn verndaður af stjórnarskrá

Lára bætir við að eftir að sá dómur féll árið 2002 hafi Hæstiréttur slegið því föstu að verkfallsrétturinn væri verndaður af 2. málsgrein 11. greinar Mannréttindasáttmála Evrópu.  „Það þýðir að verkfallsrétturinn er stjórnarskrárvarinn réttur og það þarf mikið til að hægt sé að fara gegn honum. Það eru yfirleitt einhverjar meiriháttar ástæður sem réttlæta það að farið er gegn þessum rétti.“

Í 2. málsgrein 75. greinar stjórnarskrárinnar kemur fram að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. 

„Ef þeir segjast ætla í mál fara þeir í mál“

Þegar Lára er spurð hvernig hún sjái fyrir sér að málið muni þróast segist hún ekki eiga von á öðru en að BHM og FÍH fari í mál við ríkið. „Ef þeir segjast ætla í mál fara þeir í mál,“ segir hún. „En maður getur velt því fyrir sér hvort það þýðir þá ekki að þeir muni ekki semja á þessum hálfa mánuði sem þeir hafa til að gera samning,“ segir Lára en lögin gera ráð fyrir því að menn geti gengið til samninga til 1 júlí.

Náist ekki samningar fyrir þann tíma verður deilunni vísað í gerðardóm.

„Ef þeir semja núna eru þeir væntanlega bundnir friðarskyldu og geta ekki knúið á um bætt kjör með nýju verkfalli. En þeir gætu svo sem líka samið og krafist viðurkenningar á þeim rétti sínum að þeir hefðu mátt semja. En sú viðurkenning hefur ekki mikið upp á sig ef þeir geta ekki nýtt hana með einhverjum hætti.“

Alveg hægt að láta reyna á þetta

Lára vill ekki segja til um hver niðurstaða dómstólsins verður ef málið fer alla leið. „En það er alveg hægt að láta reyna á þetta. Það eru alveg rök til þess að fylgja svona málum eftir bara vegna þess að þetta eru hagsmunamál stórs hóps fólks sem verið er að svipta stjórnarskrárbundnum rétti og það er mjög alvarlegt. Það er full ástæða að láta á það reyna hvort þau neyðarsjónarmið hafi verið til staðar sem réttlæta slíkt inngrip.“

Lára V. Júlíusdóttir.
Lára V. Júlíusdóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert