Hittum tvisvar í mark með einni kúlu

Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. mbl.is/Golli

Ekki er rétt að hugsa um það hvort einhverjir kröfuhafar hafi ávaxtað fé sitt á föllnu bönkunum eða ekki, heldur er aðaláherslan hvort að hér náist stöðugleiki með uppgjöri þeirra og afnámi hafta. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Már var spurður af þáttastjórnanda, Sigurjóni M. Egilssyni, um ummæli sín þess efnis að Ísland hefði eitt skot í byssunni og þyrfti að hitta í mark. Már sagði að þessi ummæli hefðu átt við uppgjör á slitabúum föllnu bankanna, en ekki um höftin. Með afnámsáætluninni hefði Ísland þó hitt í mark að hans sögn og gott betur en það. „Held að við höfum hitt og jafnvel að við föum hitt tvisvar í mark með einni kúlu,“ sagði Már.

Hefði skatturinn átt að vera hærri?

Sigurjón spurði Má svo ítrekað um upphæð stöðugleikaskattsins, hvort að ekki hefði átt að hafa hann hærri og hvort ríkið gæti ekki hagnast betur á þessari leið. Már sagði að stöðugleikaskatturinn og undanþágurnar væru ekki hugsaðar út frá því sjónarhorni. Sagði hann að þar væri aðeins hugað að stöðugleika hér á landi. Sagði hann að ekki hefði  mikið heyrst opinberlega um óánægju varðandi þetta mál. Sagði hann að skatturinn væri ekki fundinn út frá því hvað gæti hámarkað tekjur ríkissjóðs, heldur til að lágmarka líkur á óstöðugleika við uppgjör búanna.

Már sagði að með þessari leið gætu skuldir ríkissjóðs lækkað um allt að þriðjung. Sigurjón spurði hann þá hvort þetta væri svipuð staða og fyrir hrun og svaraði Már því til að fyrir hrun hafi skuldastaðan verið mjög góð og að með stöðugleikaskattinum eða samkomulagi við kröfuhafa muni skuldirnar ekki fara jafn lágt.

Skipbrot regluverks hjá EES

Núna sér fyrir mögulega losun hafta og að Íslendingar geti farið að hreyfa sig á ný í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Sigurjón spurði Má hvernig Íslendingar væru séðir af erlendum fjárfestum og bönkum, sérstaklega þeim sem hefðu tapað á hruninu. Már sagðist ekki hafa upplifað neina fordóma gagnvart Íslendingum. Sagði hann að menn hefðu áttað sig á því að „Ísland var bara spörfuglinn í námuopinu.“ Þannig hefði Ísland verið fyrst til að falla, en með tímanum hafi menn áttað sig á því að það sem hér gerðist var ekki bara vegna mistaka í hagstjórn, sem hann segir að hafi verið gífurleg, eða með skorti á eftirliti. Sagði Már að hrunið hefði ekki síst verið sameiginlegt skipbrot regluverks sem var mótað á evrópska efnahagssvæðinu. Segir hann að það kerfi hafi verið galið.

Bankarnir völsuðu um alla Evrópu án þess að vera varðir

Kerfið „byggðist á því að bankar sem fengu leyfi hjá okkur gátu valsað um alla Evrópu og leyfið hér gilti þar og þessari starfsemi fylgdi áhætta sem var óvarin,“ sagði Már. Þannig hafi bankarnir getað byggt upp stóra efnahagsreikningi erlendis sem hafi verið gott fyrir framfarir, en á sama tíma áhættusamt. Benti hann á að þjóðríki hefðu byggt sér upp kerfi til að takast á slíkri áhættu, t.d. seðlabanka, innistæðusjóði o.s.frv. Með þessa banka vorum við aftur á móti með slys sem beið þess að ske, sagði Már.

Sigurjón Magnús Egilsson, þáttastjórnandi Sprengisands.
Sigurjón Magnús Egilsson, þáttastjórnandi Sprengisands.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert