Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fór í 23 utanlandsferðir í embættiserindum á fyrstu tveimur árum kjörtímabilsins, frá maí 2013 til maíloka 2015. Ferðirnar kostuðu samtals tæpar tuttugu milljónir króna.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur, varaformanni Samfylkingarinnar. Katrín spurði alla ráðherra ríkisstjórnarinnar um utanlandsferðir þeirra.
Ragnheiður Elín var erlendis í opinberum erindagjörðum í 84 daga fyrstu tvö ár kjörtímabilsins.
Fram kemur í svarinu að dýrasta ferðin hafi verið vikulöng ferð til Melbourne í Ástralíu, þar sem ráðherrann sótti ráðstefnu um orkumál, en ferðin kostaði tæplega þrjár milljónir króna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur varið samtals 62 daga í opinberum ferðum erlendis það sem af er þessu kjörtímabili samkvæmt svari hans við fyrirspurninni.