„Þetta var náttúrulega komið miklu meira en nóg,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, í samtali við mbl.is um lagasetningu Alþingis á verkfallsaðgerðir BHM og hjúkrunarfræðinga sem samþykkt var í gærkvöld. Dýralæknar hjá Matvælastofnun voru á meðal þeirra félagsmanna BHM sem voru í verkfalli sem hafði ekki síst mikil áhrif á rekstur matvælafyrirtækja í landinu.
Steinþór segir að það hljóti að vera takmörk á því hversu miklu tjóni hægt er að leyfa verkfallsaðgerðum að valda. Löngu hafi verið orðið tímabært að grípa inn í aðgerðirnar. Spurður hvað verkfallið hefur kostað SS og Reykjagarð, dótturfélag þess, segir hann að það sé líklega á bilinu 70-100 milljónir króna. Nú fari allir væntanlega í það á fullu að bjarga verðmætum.
„Það fer væntanlega allt á fullt á morgun. Bæði slátrun og inn- og útflutningur.“