Vilja ná fram réttlæti

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM. mbl.is/Rax

Í næstu viku mun BHM sækja ráðgjöf til fleiri lögmanna vegna væntanlegrar málsóknar sinnar gagnvart ríkinu fyrir lagasetningu á verkfall sem samþykkt var á þinginu í gær. Þrátt fyrir að slík geti tekið langan tíma er það ekki of langur ferill til að ná fram réttlæti, sem félagsmenn vilji sjá. Þetta segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, í samtali við mbl.is.

Í tilkynningu fyrr í dag kom fram að BHM teldi lagasetninguna vera skýrt brot á ákvæðum stjórn­ar­skrár­inn­ar og Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Þar sé ríkisvaldið að setja lög á sjálft sig sem samningsaðila. BHM segir það umhugsunarvert að ríkisvaldið hafi ekkert gert til að afstýra verkföllum, þess í stað hafi það eytt tíma í dómsmál til að hnekkja verkfallsboðum sem hafi verið hafnað af Félagsdómi. Þá er bent á að á þeim 24 samningafundum sem BHM hafi átt með samninganefnd ríkisins hjá Ríkissáttasemjara hafi aldrei verið þokað frá forskrift Samtaka atvinnulífsins.

Fyrr í dag greindi Rúv frá því að hjúkrunarfræðingar væru í auknum mæli að segja upp störfum á Landspítalanum í kjölfar lagasetningarinnar. Segir Þórunn að hún hafi ekki heyrt af slíku frá félagsmönnum BHM, fyrir utan uppsögn þriðjungs geislafræðinga sem kom fram í byrjun mánaðarins. Hún segir að væntanlega muni þó koma í ljós eftir helgi hvort einhverjir ætli að segja störfum sínum lausum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert