Vill breyta alþjóðlega fjármálakerfinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það veldur mér áhyggjum hversu lítið hefur breyst frá fjármálakrísunni,“ er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í tengslum við fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um afnám fjármagnshaftanna. Vísar hann þar til uppbyggingar alþjóðlega fjármálakerfisins. Hann segir að gallar kerfisins sem leitt hafi til alþjóðlegu fjármálakrísunnar og erfiðleika Íslands í framhaldinu hafi ekki verið lagfærðir.

Haft er ennfremur eftir Sigmundi að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hafi verið í nánu samstarfi evrópska ráðamenn við að leita leiða til þess að koma í veg fyrir að frekari fjármálaerfiðleikar ættu sér stað í framtíðinni. „Ég myndi vilja sjá það endurskoðað hvernig við nálgumst þetta mál. Sem þýðir að við kunnum að þurfa að horfast í augu við að svo kunni að vera að það fyrirkomulag sem hefur verið hannað innan kerfisins, þar sem fjármagn flæðir frá einum stað til annars, sé ekki besta eða öruggasta leiðin til þess að starfrækja fjármálakerfi.“

Sjálfstæður gjaldmiðill skipti sköpum

Sigmundur segist vonast til þess að skref í þá átt að afnema stuðli að aukinni erlendrar fjárfestingar í landinu. Þar verði einkum um að ræða fjárfesta sem hafi áhuga á að festa fé í verkefnum á Íslandi. „Við þurfum á fjármálakerfi að halda sem hefur burði til og áhuga á að fjármagna efnahagslíf landsins.“

Rifjað er upp að ríkisstjórnin hafi endanlega sagt skilið við umóknina um inngöngu í Evrópusambandið í mars á þessu ári. Sigmundur segir sjálfstæðan gjaldmiðil hafa gegnt lykilhlutverki í þeirri vinnu að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Nokkuð sem Grikkjum, sem notuðust við evru, hafi ekki staðið til boða.

„Það sem skipti sköpum við að komast út úr fjármálaerfiðleikunum og þangað sem við erum í dag var að hafa okkar eigin gjaldmiðil og stjórn yfir eigin peningamála- og efnahagsstefnu sem og náttúruauðlindum okkar. Möguleikar Grikkja eru ljóslega mun takmarkaðri þar sem þeir eru hluti af evrusvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert