„Það er mest að gera hjá okkur á sunnudögum og fimmtudögum. Í gærkvöldi komu 17 vélar á sama klukkutímanum og við getum að hámarki afgreitt 18,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, en talsverð örtröð myndaðist á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi. Fólk var lengi að ná í töskurnar sínar og raðir mynduðust við færibandið og í fríhöfninni.
„Það skiptir líka máli hvernig samsetning farþegahópsins er. Ef allir eru að koma til landsins þá eru fleiri farþegar á komusvæðinu en síðan getur líka verið að talsverður fjöldi sé að millilenda, og þá eru færri á komusvæðinu. Síðan skiptir líka máli hversu margir farþegar eru í hverri vél,“ segir Guðni.
Alls er búist við að um 4,5 milljónir farþega muni fara um flugstöðina í ár, fjölgum upp á um 700 þúsund frá því í fyrra.
„Við búumst við að þetta verði stærsta sumarið í sögu flugvallarins,“ segir Guðni.
Hann segir að farið hafi verið í að bæta flæðið á flugstöðinni og að nú standi yfir stækkunarframkvæmdir þar sem 6000 fermetrar eigi að bætast við. Komusvæðið er nú 700 fermetrar. „Þegar við skoðum þróunaráætlunina næstu 25 árin þá er þar gerð ráð fyrir tvöföldun á flugstöðinni til norðurs og að við bætist ein flugbraut til viðbótar. Það verður mikilvægt leiðarljós hjá okkur til framtíðar. Árið 2040 gerum við ráð fyrir 12-15 milljónum farþega um völlinn og það er því gríðarlega mikilvægt að vera búinn að ákveða stækkunina í stað þess að þurfa að taka á vandamálinu eftir á,“ segir Guðni.
Hann segir að það muni koma fleiri slíkir álagstoppar yfir sumarið, þótt það sé ekki algengt að það lendi svona margar vélar á einni klukkustund. „Við höfum líka reynt að taka á vandamálinu með því að dreifa álaginu yfir sólarhringinn. Vélarnar frá Easy Jet og Lufthansa eru til dæmis að lenda á tímum utan álagstímans auk þess sem aukningin á vetrarferðamennsku hefur svipuð áhrif,“ segir Guðni.