Sólin hefur leikið við landsmenn síðustu daga og hver stund því verið nýtt til útiveru. Í fyrradag mældust 19,4 sólskinsstundir á sjálfvirku stöðinni í Reykjavík, sem er jafn mikið og mældist 20. júní árið 2008, meira en annars hefur mælst á reykvískri veðurstöð. Þetta segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur og áhugamaður um veður, á vefsvæði sínu í gær.
Á gamla kúlumæli Veðurstofunnar mældust sólskinsstundirnar í fyrradag 18,0 talsins, sem er meira en áður hefur mælst þar 13. júní og nokkurn veginn það mesta sem mælst getur á þann mæli Veðurstofunnar. Einu sinni hefur þó mælst meira, 18,3 stundir, 17. júní árið 2004.
„Það er varla að það hafi skyggt á í dag,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofunni. Sólarupprás var um klukkan 02:50 í gær og sólsetur áætlað klukkan 23:59. Fjöldi sólskinsstunda þann 14. júní verður því endanlega ljós í dag. Klukkan hálfellefu í gærkvöldi mældust sólskinsstundirnar þó 17 klukkustundir og 57 mínútur.
Þrátt fyrir þessa röð góðviðrisdaga virðist rigningin ætla að taka við keflinu. Veðurhorfurnar um land allt í dag benda til þess að sólin dragi sig í hlé eftir því sem líður á daginn.
Hitastig verður þó hátt, um 10-17 stig. Þá verður fremur hæg en breytileg átt og bjart að mestu. Sunnantil verður vaxandi austanátt. Það mun svo þykkna upp síðdegis og fer að rigna. Um landið norðanvert verður hæg breytileg átt og bjartviðri en þykknar upp um kvöldið.