42 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp

42 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp í dag.
42 hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp í dag. mbl.is/Eggert

Í dag hafa 42 hjúkrunarfræðingar sagt upp störfum á Landspítalanum. Þetta staðfestir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans í samtali við mbl.is, en hann segir ólgu vera meðal starfsliðsins eftir lagasetningu á verkföll um helgina. Þessi tala bætist við þá 21 geislafræðinga sem sögðu upp störfum í síðasta mánuði.

Í dag vinna um 1500 hjúkrunarfræðingar á spítalanum í 1100 stöðugildum. Aðspurður hvort fleiri hafi gefið út að þeir hyggist segja upp segir Páll að blendnar tilfinningar séu hjá starfsfólki, fólk finni fyrir depurð, reiði og létti á sama tíma og að það taki á. Hann hafi þó ekki upplýsingar um fleiri uppsagnir að svo stöddu.

Nú mun taka við ærið verkefni að vinna á biðlistum og koma starfseminni í gang að nýju eftir verkföllin, en Páll hefur áður sagt að ólíklegt sé að biðlistar muni styttast fyrr en eftir sumarfrí. Hann segir að vinna sé þegar hafin við að kortleggja stöðuna og hvernig bregðast eigi við eftir verkföllin. „Starfsemin er ekki komin í venjulegt horf aftur,“ segir hann og bætir við að bæði sé vanlíðan í hópnum og þá fari talsverð orka í að taka á móti og halda utan um starfsmenn spítalans í þessu ástandi deiluaðila.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert