Engir fundir hafa verið boðaðir í kjaradeilum Bandalags háskólamanna (BHM) og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við ríkið.
Verið er að fara yfir stöðu mála og ræðir ríkissáttasemjari nú við deiluaðila og kannar hvort tilefni sé til að boða til funda. Verkfallsaðgerðum félaganna lauk með lagasetningu á Alþingi á laugardag.
Líkt og kemur fram í Morgunblaðinu í dag hefur heil vakt hjúkrunarfræðinga á gjörgæsludeild Landspítalans sagt upp störfum og veldur lagasetning mikilli reiði meðal félagsmanna BHM. Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagðist í samtali við Morgunblaðið í dag ekki geta gefið upp kröfur hjúkrunarfræðinga í deilunni.
Ekki náðist í Þórunni Sveinbjarnardóttur, formann BHM, og Ólaf við vinnslu fréttarinnar.