Þurrkur og vindar orsaka svifryk

Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag. Styrmir Kári

Það svifryk sem legið hefur yfir höfuðborgarsvæðinu í dag stafar af fíngerðum ögnum sem vindurinn hefur tekið upp inn á landi og feykt í vesturátt. Er meðal annars um að ræða mold og mögulega ösku frá eldgosunum í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli. Gert er ráð fyrir rigningu um miðnætti, en það ætti að draga úr svifryksmengun til muna.

Kristín Lóa Ólafsdóttir, heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segir í samtali við mbl.is að undanfarið hafi verið þurrt, hlýtt og hægur vindur. Við slíkar aðstæður lyftir vindurinn fíngerðustu ögnunum upp og beri þær með sér. Í dag hafi vindáttin borið þetta þurramistur yfir höfuðborgarsvæðið, en á hlutfall svifryks á öllum mælistöðvum í Reykjavík mældist vel yfir viðmiðunarmörkum.

„Við viljum ekki sjá lítil börn sofandi út í vagni“

Kristín Lóa segir að svifryk hafi mælst um 250 til 300 míkrógrömm á rúmmetra í tvær til þrjár klukkustundir, en almennt er miðað við að magnið fari ekki yfir 50 míkrógrömm á sólarhring. Hún segir alltaf óhollt að fá fíngerðar agnir ofan í lungun og að magnið í dag geti verið slæmt fyrir ung börn og fólk með öndunarerfiðleika.  „Við viljum ekki sjá lítil börn sofandi út í vagni,“ segir Kristín, en tekur jafnframt fram að þetta eigi ekki að hafa mikil áhrif á þá sem séu frískir.

Þurramistur sem þetta eru náttúrulegar aðstæður sem erfitt er að ráða við og segir Kristín að við getum gert ráð fyrir svona mengun þegar aðstæður séu eins og í dag og þurrt hafi verið á hálendinu. Aðspurð hvort um sé að ræða ösku frá gosunum í Grímsvötnum og Eyjafjallajökli segir Kristín að svo geti vel verið, en að það hafi þó ekki verið greint sérstaklega. Segir hún að eftir gosin hafi það komið fram að líklega myndi öskuryk fjúka um landið í nokkur ár á eftir. „Ég get samt ekki staðfest að hvort þetta sé það,“ segir hún.

Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag. Styrmir Kári
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag. Styrmir Kári
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Svifryk á höfuðborgarsvæðinu í dag. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert