Áþreifanleg áhrif Beauty tips í borgarstjórn

Sóley sagðist sjálf hafa tekið óþarflega mikið tillit til hörundssárs …
Sóley sagðist sjálf hafa tekið óþarflega mikið tillit til hörundssárs feðraveldis vegna ofbeldishótanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Facebook hópurinn Beauty tips og barátta meðlima hans gegn þöggun fórnarlamba kynferðisofbeldis flýtti fyrir stofnun ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar en tillaga að fyrsta verkefni hennar var samþykkt í dag.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, mælti fyrir tillögunni, sem samþykkt var einróma. Benti Sóley á að niðurstaða um stofnun nefndarinnar hafi ekki átt að liggja fyrir fyrr en þann 1. nóvember á þessu ári og að það gerðist hreint ekki oft að opinbert stjórnvald væri á undan áætlun. Skýringuna kvað hún vera ákall meðlima Beauty tips.

„Það var samdóma álit allra flokka að ástandið í samfélaginu, sterk rödd hundruða ef ekki þúsunda kvenna á samfélagsmiðlum og ákall um ábyrgð hins opinbera krefðist viðbragða frá okkur,“ sagði Sóley sem kvaðst glöð og stolt yfir því að tilheyra borgarstjórn sem væri sammála um að axla ábyrgð á þeirri samfélagslegu meinsemd sem kynferðislegt ofbeldi er.

„Tilefnið er aldeilis til staðar,  eins og ég hef þegar sagt. Enn ein byltingin stendur yfir. Stelpur sem stíga fram og varpa frá sér ábyrgð og skömm vegna ofbeldis sem þær hafa orðið fyrir á einhverjum tímapunkti og með einhverjum hætti. Það er okkar að grípa boltann. Samfélagið verður að axla ábyrgðina – taka hana frá þolendum og bregðast við.”

Hörundssárt feðraveldi

Sóley sagði  mikilvægt að samfélagið brygðist við reynslu og upplifunum þolenda af virðingu, með því að viðurkenna vandann, tryggja ráðgjöf og stuðning við hæfi og sporna gegn frekara ofbeldi. Sagði hún ofbeldi stærstu ógnina við lýðræðið, virka þátttöku kvenna, áhrif þeirra og völd og tók fram að hún hefði sjálf fengið ótal hótanir um ofbeldi og líkamsmeiðingar vegna pólitískra skoðana og að slíkar hótanir hefðu haft áhrif á hvernig hún hagar málflutningi sínum.

„Ég hef ítrekað sleppt því að tala – eða ákveðið að taka óþarflega mikið tillit til hörundssárs feðraveldis í pólitískum störfum mínum.”

Sóley vék einnig orðum sínum að skrímslavæðingu gerenda og benti á að gerendur væru í langflestum tilfellum menn sem væru elskaðir og gætu eins verið konur.

„Gerendur eru alls ekki endilega óalandi og óferjandi. Aðstoð og ráðgjöf fyrir gerendur, auk fræðslu um mörk, virðingu og gott kynlíf eru viðfangsefni sem við verðum að taka alvarlega.”

Sóley sagði að konur yrðu að búa við öryggi til að geta raunverulega verið frjálsar. Þær ættu að geta sagt skoðun sína óhræddar og tekið virkan þátt ef og þegar þeim sýnist.

„Friðsamlegt samfélag er samfélag þar sem konur geta óhræddar og óhikað sagt það sem þeim finnst – jafnvel sagt móðgandi hluti eða talað um eitthvað sem einhverjum finnst óviðeigandi. Þetta friðsamlega samfélag er á okkar ábyrgð.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert