Sú gagnrýni Landspítalans gagnvart sjúkrahótelinu sem birtist í umfjöllun Kastljóss í kvöld byggir á því að stjórnendur Landspítalans virðast í grunninn ósáttir við upplegg Sjúkratrygginga sem byggir á samningi um rekstur sjúkrahótels. Þá sýndi þjónustukönnun fram á að 97% gesta töldu upplifun sína góða eða mjög góða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilsumiðstöðinni, en hún tók yfir rekstur Sinnum í fyrra.
Lesa má tilkynninguna í heild hér að neðan:
Vegna umfjöllunar Kastljóss, vill Heilsumiðstöðin, sem rekur sjúkrahótel í Ármúla, koma eftirfarandi á framfæri.
Heilsumiðstöðin harmar að vera dregin inn í ágreining sem ríkir á milli Landspítala og Sjúkratrygginga Íslands um starfsemi sjúkrahótels. Félagið hefur í einu og öllu lagt sig fram um að vinna vel eftir þeim samningi sem gerður var um starfsemina allt frá því að hún var boðin út í byrjun árs 2011 og auka samvinnu aðila á þessu sviði.
Stjórnendur Landspítalans virðast í grunninn ósáttir við upplegg Sjúkratrygginga sem byggir á samningi um rekstur sjúkrahótels. Þær athugasemdir sem koma frá spítalanum snúa fyrst og fremst að eðli samningsins sem rekstraraðila ber að fara eftir og gerir af miklum metnaði með hag gesta að leiðarljósi.
Hagur sjúklinga og aðstandenda þeirra hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera í forgrunni og þó Landspítalinn keppist við að halda mikilvægi nýs sjúkrahótels á lóð spítalans við Hringbraut á lofti, má slíkt aldrei bitna á þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda núna. Á sjúkrahótelinu hefur verið brugðist hratt og vel við þegar áföll koma upp, svo sem eins og þegar sjúklingar af Landspítalanum hafa borið með sér nóróveirusýkingu á sjúkrahótelið eða þegar hjúkrunarfræðingar Landspítalans draga úr þeirri hjúkrunarþjónustu sem veitt er. Allt kapp hefur verið lagt á að gestir sjúkrahótelsins verði fyrir sem minnstu raski vegna slíkra atburða.
Þjónustukönnun sem Bráðasvið Landspítalans framkvæmdi á starfsemi sjúkrahótelsins í lok árs 2011 þar sem könnuð var afstaða gesta, leiddi í ljós að 97% gesta töldu upplifun sína góða eða mjög góða, 3% voru hlutlaus en enginn taldi dvölina slæma eða mjög slæma. Það er ljóst að almenn og mikil ánægja er meðal gesta sjúkrahótelsins, sem greiða 1.200 krónur á sólarhring fyrir einstaklingsherbergi og fullt fæði.
Umfangsmiklar framkvæmdir hafa staðið yfir á hótelinu sl. ár til að bæta aðbúnað gesta en búið er að loka næturklúbbnum Broadway til að draga úr ónæði en setja í staðinn upp aðstöðu til endurhæfingar og aðra þjónustu sem nýtist m.a. gestum sjúkrahótels. Mikil áhersla hefur verið lögð á að takmarka ónæðið sem mest vegna framkvæmdanna en eðlilega fylgir alltaf eitthvað ónæði þegar miklar endurbætur standa yfir. Heilsumiðstöðin mun áfram kappkosta að taka vel á móti gestum á sjúkrahótelið og hlakkar til að bjóða þeim upp á enn betri aðstæður nú í sumar þegar framkvæmdum við endurnýjað hótel og betri aðstöðu er að ljúka.
Kolbrún Hrund Víðisdóttir Framkvæmdastjóri.