„Þetta er gjörsamlega ný tillaga og ekki breytingartillaga við frumvarpið að því leytinu til að þarna er lögð fram allt önnur stefna,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og vísar þar til breytingartillögu við frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.
Tillagan var lögð fyrir fund atvinnuveganefndar í dag og hefur vakið hörð viðbrögð stjórnarandstöðuflokka á þingi. Var þingfundi til að mynda frestað um sex klukkustundir vegna þessa. Átti hann að hefjast klukkan 11 í morgun.
Katrín segir það vera afleitt að leggja fram breytingar sem þessar þegar komið er tveimur vikum fram yfir starfsemi þingsins.
„Við höfum lagt mikla áherslu á að makrílfrumvarpið verði leyst með tímabundnum ráðstöfunum. Það er mjög mikilvægt að við höfum framtíðarsýn í þessum málum áður en makrílnum er ráðstafað,“ segir hún og bætir við að ekki sé vænlegt til sátta að leggja til að makríllinn fari í almenna kvótasetningu.
„Það er í raun bara ný tillaga,“ segir hún.
Fyrri frétt mbl.is:
Jón Gunnarsson „strikes again“