Þingfundum á Alþingi hefur ítrekað verið frestað í dag. Áttu þeir upphaflega að hefjast klukkan 11 en nú er fundur hins vegar næst boðaður klukkan 17.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti varaformaður atvinnuveganefndar, sagði fyrr í dag ástæðu frestunar þingfunda vera breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnar um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl. Segir hún tillögurnar „óásættanlegar“ en þær fela í sér styttingu á úthlutunartíma, sem upphaflega átti að vera til sex ára, og að makríllinn verði kvótasettur.
Töldu þingmenn stjórnarandstöðu hins vegar samkomulag vera uppi þess efnis að makrílnum yrði úthlutað með óbreyttum hætti næsta ár. Þessar tillögur munu ekki vera í samræmi við það.
Jón Þór Ólafsson, varaformaður þingflokks Pírata, er áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd. Hann segir þingið nú komið í uppnám vegna tillögunnar.
„Þetta er bara Jón Gunnarsson „strikes again“ með Sigurð Inga [Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra] í farteskinu. Þeir ákváðu í raun að leggja fram nýtt frumvarp í formi breytingartillögu við makrílfrumvarpið,“ segir Jón Þór en Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, er jafnframt formaður atvinnuveganefndar.
„Þeir vilja afgreiða þetta fyrir þinglok en það er nú enginn tími til þess ætli menn að ljúka þingi um miðja næstu viku,“ segir hann.
Í færslu sem Jón Þór birti á Facebook-síðu sinni fyrir skömmu veltir hann upp þeirri spurningu hvort einhver sé tilbúinn til að gera styttu af formanni atvinnuveganefndar. Í færslunni segir Jón Þór orðrétt:
„Getur einhver búið til litla styttu af Jóni Gunnarssyni á stærð við Óskarinn, sem verður svo veitt sem verðlaunin "Freki Kallinn" til frekasta stjórnmálamannsins ár hvert?“