Leggjast gegn flutningi Landhelgisgæslunnar

Varðskip í Reykjavíkurhöfn.
Varðskip í Reykjavíkurhöfn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarstjórnarhópur Sjálfstæðisflokksins lagði á fundi borgarstjórnar í dag til að borgarstjórn myndi eindregið leggjast gegn hugmyndum um flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar frá Reykjavík, hvort sem um er að ræða að hluta til eða í heild. Kjartan Magnússon hnykkti á þessu í grein í Morgunblaðinu í morgun. Borgarstjórn sendi tillöguna til borgarráðs með 11 greiddum atkvæðum.

Kjartan mælti fyrir tillögunni, en í henni segir:

„Borgarstjórn leggst eindregið gegn hugmyndum um flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar frá Reykjavík, hvort sem um er að ræða að hluta til eða í heild. Borgarstjórn lýsir yfir fullum vilja til að búa þannig að starfsemi Landhelgisgæslunnar í borginni, jafnt flugdeild sem skiparekstri stofnunarinnar, að hún nái að þróast og eflast.“

Landshlutanefnd fyrir Norðurland lagði til í apríl að 90 störf verði flutt í landshlutann og í desember á síðasta ári lagði nefndin til að höfuðstöðvar RARIK og Landhelgisgæslunnar yrði færðar í Skagafjörð.

Kjartan sagði helstu starfsstöðvar Landhelgisgæslunnar hafa verið byggðar upp í Reykjavík, þó hluti þeirra sé á Keflavíkurflugvelli. Hann rifjaði upp að á árum áður hafi Íslendingar reitt sig að töluverðu leyti á björgunarsveitir varnarliðsins, en núna sjái Íslendingar nánast einir um björgun á sjó á stórum hluta Norður-Atlantshafs.

Hann sagði að ýmsir staðir hafi verið nefndir sem mögulegar heimahafnir Landhelgisgæslunnar, t.d. Ísafjörður og Suðurnes, í þeim tilgangi að efla byggð á þeim stöðum. Hann telur hins vegar að flestir starfsmenn Landhelgisgæslunnar vilji að hún yrði áfram staðsett í Reykjavík, og gagnrýnt að þingmenn Reykjavíkur hafi ekki lagst gegn þessum tillögum. „Þarna eru fjölskyldur sem hafa sett sig niður og treysta á sínar fyrirvinnur,“ sagði Kjartan þegar hann mælti fyrir tillögunni.

Hann benti einnig á að þegar horft er til þeirra staða þar sem þyrlur Landhelgisgæslunnar athafna sig helst, svo sem við björgun eða að sækja slasaða, eru í kringum Reykjavík og því væri rétt að hafa þyrlur hennar staðsettar í borginni.

Dagur B. Eggertsson sagði í ræðu sinni eftir að Kjartan hafði flutt tillöguna að hann saknaði sýringa á því hvert tilefni þessarar tillögu var, því Kjartan nefndi ekki í ræðu sinni hvert tilefnið væri. Dagur sagði miðað við þetta fullt tilefni til að álykta um að um 200 stofnanir væru ekki fluttar frá Reykjavík.

Hann spurði Kjartan hvort hann hefði upplýsingar sem hann hefði ekki sjálfur um hvort flutningur Landhelgisgæslunnar væri á döfinni. Kjartan svaraði því hins vegar á þann hátt að verið væri að leggjast gegn hugmyndum um flutninginn, og nefndi í því samhengi landsbyggðina í grein sinni í Morgunblaðinu.

Björn Blöndal hvatti til þess að tillagan yrði send til borgarráðs, þar sem hægt væri að skoða hana nánar, því hann sæi ekki þá brýnu þörf að samþykkja tillöguna í núverandi mynd.

Frétt mbl.is: Leggja til flutning fleiri stofnana

Vilhjálmur Bjarnason tók nokkurn veginn í sama streng og borgarstjórnarhópurinn í grein í Morgunblaðinu.Þar gagn­rýndi hann lands­hlutanefnd fyr­ir Norður­land vestra, sem hef­ur ákveðið að leggja til flutn­ing Land­helg­is­gæsl­unnar og RARIK í Skaga­fjörð.

Kjartan Magnússon. Mynd úr safni.
Kjartan Magnússon. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert