Lítur á sjúkdóminn sem hlutverk

Arnmundur Ernst Backman flutti ræðuna fyrir móður sína, en forseti …
Arnmundur Ernst Backman flutti ræðuna fyrir móður sína, en forseti Íslands veitti verðlaunin. mbl.is/Styrmir Kári

„Um stundir óttaðist ég að Grímunefndin gengi ekki heil til skógar þar sem ég hef ekki stigið á svið í tólf ár,“ sagði leikkonan Edda Heiðrún Backman á sviði Borgarleikhússins, en hún hlaut Heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands 2015 á Grímunni í kvöld. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin fyrir hönd íslenskra leikara. Sonur Eddu, leikarinn Arnmundur Ernst Backmann, flutti ræðuna fyrir móður sína.

Í ræðu sinni ræddi Edda um hvernig hún opnaði blómabúð á fimmtugsafmæli sínu árið 2007 sem síðan „lagðist pent á hliðina 2009“. Þá voru góð ráð dýr að sögn hennar. „Ég byrjaði að reyna að mála með munninum, því það var það eina sem ég gat. Um þessar mundir er myndlistin lifibrauð mitt. Það má með sanni segja að ég sé þjónn listarinnar,“ sagði Edda.

„Ég kýs að líta á sjúkdóminn sem hlutverk. Lömuð kona í hjólastól sem keppist við að mála með munninum eins og hún eigi lífið að leysa. Öllu dramatískara getur það ekki orðið, enda gefin fyrir drama þessi dama.“

Þá sagði Edda þrennt sérstaklega brenna á sér, jafnrétti í víðasta skilningi orðsins, íslensk leikritun og baráttan fyrir því að rannsóknir á heilanum og taugakerfinu verði eitt af þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. „Rúmlega einn milljarður jarðarbúa þjáist af veikindum tengdum taugakerfinu, t.d. MND, MS og Alzheimers, Parkinson, alls kyns geðveiki, flogaveiki svo ég tali ekki um slysin sem koma niður á taugakerfinu,“ sagði Edda.

Þá minntist hún haustdaganna árið 1989 þegar hún tók þátt í að vígja stóra svið Borgarleikhússins í leiksýningunni Höll Sumarlandsins. „Hitt man ég líka vel að á æfingatímanum tók ég mér fimm daga frí til að koma í heiminn þessum dreng sem hér stendur og les hugleiðingar mínar til ykkar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert