„Samfélagsmiðlar hafa breytt mótmælum“

Íslenskir falun gong aðdáendur mótmæla 17. júní 2002.
Íslenskir falun gong aðdáendur mótmæla 17. júní 2002. mbl.is/Kristinn

Mótmæli hafa verið haldin áður á 17. júní þó ef til vill séu þau ekki eins stór í sniðum og fyrirhuguð mótmæli á morgun á Austurvelli.

Mbl.is sagði frá mótmælum á 17. júní fyrir sex árum. „Það var nú enginn ógnarfjöldi en það var sjaldgæft að menn væru að gjamma mikið. Þetta var svolítill hávaði og frammíköll yfir ræðum,“ sagði Stefán Pálsson, sagnfræðingur, í samtali við mbl.is.

Stefán bendir á mótmæli Falun gong liða árið 2002 en þau vöktu talsverða athygli. „Þau voru árið í tengslum við heimsókn forseta Kína hingað til lands. Þá ákváðu menn að nota tækifærið og var talsvert um að menn kæmu gulklæddir, sem er einkennislitur Falun gong, og síðan gerði fólkið æfingar sem einkenna hreyfinguna. Þetta var 17. júní 2002 og þótti nokkuð óvenjulegt.“

Fólk boðar sig á facebook

Hann segir samfélagsmiðlana hafa breytt mótmælum. „Lengi vel var það þannig að ef fólk ætlaði að mótmæla þurfti einhver formlegur aðili að auglýsa, senda út tilkynningar og vera andlit út á við. Núna er viðburður búinn til á facebook og fullt af fólki bókar sig, hvort sem það mætir eða mætir ekki. Fyrir 20 árum hefði það verið tómt mál að tala um þá hefði þetta alltaf orðið að vera formlegt félag og þeir hefðu þá orðið að standa fyrir sínu máli.“

Falun gong mótmælin hafi verið eitt fyrsta dæmið um þetta. „Þá eru menn ekki komnir á facebook en þá er bloggið komið og mjög margir með bloggsíður og fara að tala sig upp í það í athugasemdakerfum að nú ætli allir að mæta. Fólk hópar sig saman þar. Það er þá ekki einn aðili með gjallarhorn sem stjórnar.“

Ekkert nýtt að fólk mæti með skilti

Hópur einstaklinga sem reynir að vekja athygli á sínum kröfur og mæti með skilti sé ekkert nýtt. „Það hafa bara alltaf verið smáhópar. Það beinlínis að reyna að stefna stórum hópi fólks á svæðið er fágætara en það voru náttúrulega þessi mótmæli árið 2009. Þau voru bland í poka af einhverjum svona skuldamálum og Icesave og almennum pirringi út í ríkisstjórnina og þar frameftir götunum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka