Guðrún Lísbet Níelsdóttir, hjúkrunarfræðingur og meistari í hamfarastjórnun hjá Landspítalanum, skrifaði í dag opið bréf á Facebook-síðu sína og deildi því á hóp hjúkrunarfræðinga. Segir hún þar að lagasetningin um helgina hafi ekki verið úrslitaatriði uppsagnarinnar heldur hafi sú hugsjón sem hún starfi eftir átt undir högg að sækja innan spítalans.
Nefndir Guðrún meðal annars í bréfinu manndrápsákæru á hendur hjúkrunarfræðings vegna mistaka í starfi og að hún geti ekki réttlætt það fyrir sér eða hennar nánustu að starfa á þessum vettvangi. „Við erum komin fram yfir þolmörk heilbrigðiskerfisins og nú er útlit fyrir það að á næstu misserum muni róðurinn þyngjast enn meira,“ segir Guðrún og bætir við „Stjórnendur stofnunarinnar virðast ekki hafa úr miklu að moða til að stemma stigu við þessari þróun og ljóst er að stjórnvöld munu ekki forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins.“
Lesa má uppsagnarbréfið í heild hér að neðan:
Tregablandin tímamót
Reykjavík 15. júní 2015
Ég undirrituð, Guðrún Lísbet Níelsdóttir, segi hér með upp starfi mínu sem verkefnastjóri Viðbragðsáætlunar Landspítala við Flæðissvið Landspítala og hjúkrunarfræðingur á bráða- og göngudeild G3.
Ástæður uppsagnar minnar eru margvíslegar. Atburðarás undanfarinna vikna og lagasetning á verkfall hjúkrunarfræðinga spila vissulega stórt hlutverk í þessari ákvörðun. Umrædd lagasetningi ein og sér á hins vegar ekki úrslitavaldið. Ég sækist eftir sambærilegum launum við aðra háskólamenntaða ríkisstarfsmenn, og þau er ég vissulega ekki með í dag. En launin eru ekki það eina sem ég hef sótt á Landspítala. Ég hef starfað hér af hugsjón, og nú á sú hugsjón undir högg að sækja.
Það er óhrekjanleg staðreynd að Landspítali hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Starfsumhverfið á bráðamóttökum Landspítala í Fossvogi hefur verið vægast sagt krefjandi á undanförnum árum. Þar sem ég hef lagt fram krafta mína við sífellt erfiðari aðstæður í 8 ár. Fyrirsjáanlegt er að ákveðinn fjöldi hjúkrunarfræðinga muni segja upp á næstu vikum og mánuðum og við það mun umhverfi bráðadeilda ekki eingöngu óbærilegt, heldur einnig beinlínis hættulegt. Bæði fyrir okkur sem þar starfa og ekki síst skjólstæðinga okkar. Til hliðsjónar við nýlega ákæru um manndráp á hendur hjúkrunarfræðings vegna mistaka í starfi get ég ekki réttlætt fyrir sjálfri mér né mínum nánustu að halda áfram starfi á þessum vettvangi.
Við erum komin fram yfir þolmörk heilbrigðiskerfisins og nú er útlit fyrir það að á næstu misserum muni róðurinn þyngjast enn meira. Áfallaþol Landspítala og heilbrigðiskerfisins í heild er verulega skert og er það mitt mat að heilbrigðiskerfið í þeirri mynd sem það er, sé nú veikasti hlekkurinn í almannavarnakerfi okkar Íslendinga. Stjórnendur stofnunarinnar virðast ekki hafa úr miklu að moða til að stemma stigu við þessari þróun og ljóst er að stjórnvöld munu ekki forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins. Þetta er ástand sem ég get ekki unað við.
Ég hef starfað við Landspítala frá 2003 og þessi skref eru þyngri en tárum taki. Mér er fullljóst að starf á Íslandi þar sem sérþekking mín nýtist betur verður vandfundið. Ég vil þakka fyrir samfylgdina öll þessi ár, þau tækifæri sem mér hafa boðist og þann mikla lærdóm sem ég hef dregið við nám og störf við stofnunina.
Með vinsemd og virðingu
Guðrún Lísbet Níelsdóttir, hjúkrunarfræðingur og meistari í hamfarastjórnun