Í dag voru afhjúpaðar merkingar á Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu að viðstöddum viðstöddum forsætisráðherra og hópi starfsfólks í ráðuneytinu. Húsið, sem er 250 ára gamalt, hefur ekki verið varanlega merkt til þessa þrátt fyrir að byggingin hafi verið miðpunktur íslenskrar stjórnsýslu í 111 ár.
Skjaldarmerki Íslands hefur verið sett við inngang hússins, auk þess sem settar voru upp merkingar út við Lækjargötu, þar sem stiklað er á stóru í sögu hússins. Merkingarnar voru settar upp í samráði við Minjastofnun að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Stjórnarráðshúsið á sér langa sögu. Hana má rekja allt aftur til ársins 1759, en þá var gefinn út konungsúrskurður um byggingu tugthúss á Íslandi. Tveimur árum síðar var hafist handa við framkvæmdir en smíði hússins lauk ekki að fullu fyrr en veturinn 1770 til 1771. Fyrstu áratugina gegndi húsið hlutverki tugthúss, en frá 1819 var það embættisbústaður stiftamtmanns og síðar landshöfðingja. Árið 1904 fékk húsið nýtt hlutverk, þegar Íslands fékk heimastjórn og Stjórnarráð Íslands var stofnað. Allar götur síðan, hefur húsið gengið undir nafninu Stjórnarráðshúsið.
Nánari upplýsingar um húsið má finna á vef forsætisráðuneytisins.