„Þjóðsöngurinn ætti að fá friðhelgi“

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta voru óvenjulegustu aðstæður sem kórinn minn hefur sungið við,“ segir Jón Stefánsson, kórstjóri kvennakórsins Graduale Nobili kórsins sem söng á Austurvelli við hátíðarhöldin þar fyrr í dag. Kórinn söng eitt lag eftir ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, en lítið heyrðist í söngnum fyrir mótmælunum.

Eins og fram hefur komið sóttu á milli 2.500 og 3.000 manns mót­mæl­in á Aust­ur­velli sem fóru fram sam­hliða hefðbund­inni þjóðhátíðardag­skrá. Mót­mæl­end­ur trommuðu tak­fast, blésu í lúðra og bauluðu á meðan á at­höfn­inni stóð, jafnt und­ir ræðu Sig­mund­ar sem og und­ir söngn­um.

Fyrir ræðu Sigmundar söng Mótettukór Hallgrímskirkju þjóðsönginn, en að sögn Jóns heyrðist afar lítið í söngnum. „Ég skil alveg að fólk sé að mótmæla, það er ekkert skrýtið, en það er spurning hvar mörkin liggja. Mér finnst persónulega sjálfum að þjóðsöngurinn ætti að fá friðhelgi; í mínum huga er hann alveg heilagur,“ segir Jón.

Þá söng Graduale Nobili Hver á sér fegra föðurland eftir ræðuna og segir Jón að lætin í mótmælendum hafi þá verið búin að tvöfaldast. Leitt hafi honum þó þótt að textinn kæmist ekki áleiðis til gesta og mótmælenda. „Þetta er svo stórkostlegur texti og hann undirstrikar í raun það sem mótmælendurnir eru að tala um,“ segir hann og bendir á eftirfarandi línur í textanum: 

Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

„Því miður heyrðu mótmælendur örugglega ekkert hvað fram fór. Ég stóð við hliðina á forsætisráðherra og ég heyrði ekkert hvað hann sagði þó það væru ekki nema um fimm metrar á milli okkar,“ segir hann og bætir við að textinn, sem er ortur í skugga seinni heimsstyrjaldarinnar, hafi svo mikil áhrif á meðlimi kórsins að þær tárist stundum þegar þær syngi hann.

Jón segist þó sjálfur hafa heyrt ágætlega í kórnum syngja, og meðlimirnir hafi heyrt hvor í annarri. Þá hafi söngurinn komist ágætlega til skila í sjónvarpsútsendingu, þar sem míkrófónar voru á svæðinu. „En við erum ekki vön því að vera að syngja svona fallega tónlist og dásamlega texta í þessum aðstæðum.

Aðspurður hvort hann hafi upplifað eitthvað í líkingu við þetta áður svarar Jón neitandi. „Við erum yfirleitt að syngja á friðsælum stöðum,“ segir hann og hlær. „Nú erum við nýkomin úr tónleikaferðalagi og mið-Evrópu og við fengum ekki svona móttökur þar.“

Kvennakórinn Graduale Nobili.
Kvennakórinn Graduale Nobili. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert