Endurbygging án fordæma

Vogabyggð austan Sæbrautar verður breytt í íbúða- og atvinnusvæði samkvæmt deiliskipulagstillögu sem er í vinnslu. Svæðið er í dag eingöngu atvinnusvæði en eftir breytingar verður fjórðungur húsnæðis ætlaður atvinnustarfsemi.  Gert er ráð fyrir 1.100 íbúðum í hverfinu eftir breytingar.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Þar segir, að breytingin kalli á endurbyggingu á öllum innviðum hverfisins og það eigi sér ekki fordæmi í Reykjavík að endurbyggja og breyta svo stóru svæði sem hér um ræði.

Þá segir, að Reykjavíkurborg hafi kynnt þessi áform um breytingu á skipulagi og fyrirkomulag á uppbyggingu fyrir lóðarhöfum innan hverfisins.

Íbúðarhúsnæði verður á flestum lóðum og heildarbyggingarmagn um 155.000 m2  fyrir þær 1.100 íbúðir sem áætlað er að byggja. Atvinnuhúsnæði verður á um 56.000 m2.

„Breytingarnar á hverfinu kalla á framkvæmdir við gerð gatna, torga, stíga, nýrra stofnlagna, strandstíga, útsýnis- og göngupalla, landfyllinga og grjótvarna. Auk þess er gert ráð fyrir göngubrú og stíflu við Háubakkatjörn, brú yfir Naustavog, færslu á Kleppmýrarvegi og færslu á skólpdælustöðvar. Verði hverfinu breytt í íbúðahverfi með 1.100 íbúðum kallar það á byggingu grunn- og leikskóla, en gert er ráð fyrir að ráðist verði í slíka framkvæmd samhliða uppbyggingu íbúða. Frumkostnaðaráætlun fyrir uppbyggingu innviða hverfisins nemur tæpum 5 milljörðum,“ segir í tilkynningunni. 

Nánar á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert