Makríll á borði atvinnuveganefndar

Fundur er nú í atvinnuveganefnd.
Fundur er nú í atvinnuveganefnd. Morgunblaðið/Ómar

Fundur er nú í atvinnuveganefnd þar sem meðal annars er fjallað um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla, veiðigjöld, frumvarp nefndar um stjórn fiskveiða og stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

Mikið uppnám varð á Alþingi á þriðjudag eftir að breytingartillaga var lögð fram við frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórn veiða á Norðaustur-Atlantshafsmakríl.

Sagði þá Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, meðal annars tillöguna ekki vera breytingu heldur að hún væri „gjörsamlega ný tillaga“. Afleitt væri að leggja fram slíkar breytingar þegar komið væri tveimur vikum fram yfir ætluð starfslok þingsins.

Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, þingmaður Vinstri grænna og fyrsti vara­formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar­, segir aðspurð fundinn verða langan í dag. Á hún von á því að honum ljúki ekki fyrr en um klukkan 15 en fundurinn hófst samkvæmt dagskrá klukkan 10 í morgun. 

„Við munum fá til okkar fulltrúa frá SFS [Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi], Landssambandi smábátaeigenda og Þjóðareign,“ segir Lilja Rafney en þeim er ætlað að veita nefndarmönnum álit.

Þjóðareign stendur að baki undirskriftasöfnun þar sem yfir 51.000 manns skorað á for­seta Íslands að vísa í þjóðar­at­kvæðagreiðslu  „hverj­um þeim lög­um sem Alþingi samþykk­ir þar sem fisk­veiðiauðlind­um er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekk­ert ákvæði um þjóðar­eign á auðlind­um hef­ur verið sett í stjórn­ar­skrá og þjóðinni ekki verið tryggt fullt gjald fyr­ir af­not þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka