Stefnt er að því að reisa minnisvarða um flugslysið í Fagradalsfjalli 3. maí 1943. Þar fórst bandarísk B-24 Liberator sprengjuflugvél. Aðeins einn úr áhöfninni komst af.
Á meðal þeirra sem fórust var Frank M. Andrews, yfirhershöfðingi Bandaríkjahers í Evrópu. Afhjúpa á minnisvarðann 3. maí 2018 þegar 75 ár verða liðin frá slysinu.
Áætlað er að minnisvarðinn kosti 9-10 milljónir króna, en fjársöfnun hófst 3. maí 2013. Þegar hafa safnast yfir fimm milljónir króna. Bandaríkjamaðurinn Jim Lux á mestan heiðurinn af söfnuninni og hefur mest safnast í Bandaríkjunum. Íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum hefur verið boðið að styrkja söfnunina. Í fréttatilkynningu segir að íslenskum fyrirtækjum sem fáist við steinsmíði verði boðið að senda hugmynd að minnisvarða.