Snjór á Þjórsársvæðinu er sá mesti sem þar hefur mælst í a.m.k. 25 ár. Landsvirkjun (LV) hóf í fyrra að kanna betur snjómagn á vatnasviðum vatnsaflsvirkjana að vori. Lengi hefur verið fylgst með afkomu jökla en nú er farið að fylgjast betur en áður með snjómagni utan jökla.
Andri Gunnarsson, verkefnisstjóri vatna-, veður- og jöklamælinga LV, gerði grein fyrir snjómælingum LV á sumarþingi Veðurfræðingafélagsins á þriðjudag. Hann sagði í viðtali að vatnsárin 2012-2013 og 2013-2014 hefðu verið frekar léleg miðað við væntingar LV. Því var ráðist í það verkefni að öðlast betri skilning á snjó og söfnun hans. LV hefur sinnt vöktun og mælingum á Langjökli og Vatnajökli í samstarfi við jöklahóp Jarðvísindastofnunar HÍ í meira en 25 ár og rekið veðurstöðvar yfir sumarið á jöklum. Veðurstofan sinnir sams konar mælingum á Hofsjökli.
Andri sagði að raforkufyrirtæki á Norðurlöndum, í Kanada og Bandaríkjunum hefðu lengi stundað snjórannsóknir. Snjórinn skilaði ákveðnum hluta af ársrennslinu sem knýði vatnsaflsvirkjanirnar. Því betur sem það hlutfall væri þekkt, þeim mun betur væri hægt að hámarka nýtingu vatnsins.
„Á Þjórsársvæðinu eru um 85% af vatnasviðinu utan jökla. Við þurfum að þekkja þá auðlind sem snjórinn er og vita hvað búast má við að skili sér í miðlanir og lón,“ sagði Andri. Hann sagði það líka öryggisatriði að vita hve mikill snjór væri til staðar á hinum ýmsu svæðum og hvað gæti gerst ef hann hlánaði hratt. Snöggar leysingar og mikill snjór gætu valdið flóðum sem gætu valdið tjóni á mannvirkjum og skapað hættu.
„Við höfum sett af stað fjarkönnunarverkefni og höfum reynt að greina hvaða fjarkönnunargögn er hægt að nota til að þekkja og skilja betur snjó,“ sagði Andri. LV fær gögn úr ýmsum veðurlíkönum en vandinn við snjó er að bæði er erfitt að mæla hann og reikna vatnsmagnið með fjarkönnunargögnum. Veðurstöðvar LV hafa verið uppfærðar og nú mæla þær m.a. geislun, snjódýpt og jarðvegsraka. Einnig er unnið að tilraunaverkefni þar sem náttúruleg geislun jarðar er mæld og breytileiki í henni notaður til að mæla nokkuð nákvæmlega hversu mikið vatnsgildi snjórinn geymir.