Hinn víðfrægi „Steinn“ í Esju hefur færst til og hallar nú talsvert niður á við. Göngumaður á svæðinu varð fyrst var við málið í gær. „Steinninn hefur færst nokkuð á undirlagi og hallar allnokkuð, eða 20 til 30 gráður,“ segir göngumaðurinn.
„Úr því hann hefur færst svona núna þá vil ég meina að hann geti tekið annan snúning niður á við hvenær sem og er og þá augljós hætta á ferðum á efsta hluta mýrarstígs.“
Ferðafélag Íslands hefur undanfarin ár séð um að setja upp skilti, merkingar og göngubrýr á svæðinu og einnig keðjur og þrep í klettana að sögn Páls Guðmundssonar, framkvæmdastjóra félagsins. „Landið er hins vegar á forræði borgarinnar þannig að ef það yrðu miklar aurskriður eða grjóthrun yrði það að skoðast sem sameiginlegt verkefni,“ segir Páll.
Hann segir að hópur á vegum félagsins verði sendur á staðinn til að kanna málið auk þess sem unnið er að tilkynningu til Reykjavíkurborgar. „Við viljum fyrst og fremst vara göngufólk við því að þarna getur verið hætta á ferðum.“