Fjölmargir hafa síðustu daga og vikur fengið símtöl frá númerum sem þeir kannast ekki við. Viðmælandi sem mbl.is ræddi við, sagðist þekkja marga sem hefðu lent í þessu. „Þetta er lygilega furðulegt.“
Atburðarásinni þegar hringingarnar berast er lýst með eftirfarandi hætti:
„Það hringdi heima hjá mér og það kemur „no number.“ Síðan hringir aftur og þá stendur „out of area“ og þessar hringingar komu nokkrum sinnum á einkennilegum tímum sólarhrings. Loksins fattaði ég þegar það kom númer að þetta er þetta eitthvert númer í Lettlandi.“
Númerið sem hringir og fólk i er ráðlagt að svara ekki er 371-28020126.
Viðmælandinn sagði systkini sín einnig hafa lent í þessu sama. „Mamma fékk líka símtal og hún svaraði í símann - gömul kona. Þetta er eins og einhver plága. Ég veit ekki hvort það er manneskja að hringja eða hvort þetta er gert í tölvu. Þetta er til þess að ef maður hringir til baka þá er reynt að sæta færis og fara í bankareikning sem maður á til að taka peninga.“
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is að slík mál hefðu ekki komið á borðið til lögreglunnar.
„Ég veit ekki til þess að slík mál hafi komið til okkar en ég hef sjálfur fengið svona hringingar. Fólk á alls ekki að svara þessu og alls ekki að hringja til baka.“