Segir Þorstein fara með rangt mál

Vinnustöðvun vofir yfir hjá mörg hundruð iðnaðarmönnum.
Vinnustöðvun vofir yfir hjá mörg hundruð iðnaðarmönnum. Kristinn Ingvarsson

Allt stefnir í að á fimmta þúsund iðnaðarmanna í tveimur stéttarfélögum leggi niður störf í sjö sólarhringa frá og með miðnætti aðfararnótt þriðjudags. Um er að ræða kjaraviðræður Rafiðnaðarsambands Íslands og Félags vélstjóra og málmtæknimanna við Samtök atvinnulífsins (SA) en enginn fundur hefur verið boðaður í deilunum.

Áður stóð til að verkfallsaðgerðirnar hæfust á miðnætti þriðjudaginn 9. júní síðastliðinn. Ákveðið var að fresta þeim til þriðjudagsins 23. júní.

Frétt mbl.is: Verkfalli iðnaðarmanna frestað

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra- og málmtæknimanna, sagði í samtali við mbl.is eftir frestun verkfallsaðgerðanna að tekist hefði að þoka málunum aðeins áleiðis og því hafi verið talinn grundvöllur fyrir frestun.

Vinnan væntanlega fyrir bí

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir félagið hafa verið í viðræðum við SA frá því að verkfallinu var frestað. Rætt hafi verið um ýmis atriði sem rituð voru á blað hjá ríkissáttasemjara og voru grunnur að samkomulagi um viðræður.

Kristján segir að SA hafi aftur á móti fallið frá því að ræða þessi atriði á fundi síðastliðinn þriðjudag og eftir það slitnaði upp úr viðræðunum. „Sú vinna sem var búið að fara í væntanlega fyrir bí eins og staðan er núna,“ segir Kristján.

Ekki um viðbótarkröfur að ræða

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að viðræðum um launalið gagnvart félögununum tveimur, sem og Félags hársnyrtisveina, Grafíu/FBM, MATVÍS og Samiðnar hafi verið lokið og gengið hafi verið frá samþykkt um þann hluta viðræðnanna.

„Eftir stóðu sérmálin. Í tilfelli þessara tveggja [VM og RSÍ] settu menn í raun og veru fram viðbótarlaunakröfur, undir viðræðum um sérkröfur, sem við gátum ekki fallist á. Þá slitnaði upp úr,“ sagði Þorsteinn. „Við erum ekki til viðræðu um að opna launaliðinn aftur.“

Kristján Þórður tekur ekki undir þessi orð Þorsteins.

„Það er algjörlega rangt hjá honum að þetta séu einhverjar viðbótarlaunakröfur. Þetta eru kröfur sem eru skrifaðar á blað og hann kvittar sjálfur undir að ætla að ræða við okkur á þessum tíma. Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið að þetta sé eitthvað nýtt,“ segir Kristján sem telur ólíklegt að boðað verði til samningafundar í deilunni fyrir helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert