Snýst um vald kvenna yfir eigin líkama

Silja Bára Ómarsdóttir, annar höfunda bókarinnar.
Silja Bára Ómarsdóttir, annar höfunda bókarinnar. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Ef fólki finnst það þurfa að ræða fóstureyðingar þá er mjög mikilvægt að það sé til staður þar sem það getur gert það. Við viljum skapa þannig umhverfi,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, annar höfunda bókarinnar Rof - Frásagnir kvenna af fóstureyðingum.

Þrátt fyrir að tæplega þúsund konur á Íslandi fari í fóstureyðingu ár hvert, og um 30-40% íslenskra kvenna fari í fóstureyðingu einhvern tímann á lífsleiðinni er sjaldan talað um reynslu kvennanna. Silja Bára og Steinunn Rögnvaldsdóttir ákváðu því fyrir tæpu ári síðan að óska eftir sögum kvenna sem hafa farið í fóstureyðingu og setja þær saman í fræðilegt samhengi.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og yfir hundrað og tuttugu konur settu sig í samband við þær með sögur sínar. „Ýmsar hikuðu svo eða hættu við einhverra hluta vegna og nokkrar sögðu okkur að það væri hreinlega of erfitt fyrir þær að rifja upp þessa erfiðu reynslu,“ segir Silja Bára, en eftir stóðu tæplega áttatíu sögur sem notaðar hafa verið í bókina, sem kemur út í haust.

Í dag, þann 19. júní, hefja þær söfnun og forsölu á bókinni á vefnum Karolina Fund en þar geta áhugasamir styrkt söfnunina með fjárframlögum en einnig tryggt sér eintak af bókinni. Þá verður einnig upplestur upp úr bókinni í dag, klukkan 14.30 á Bergson í Templarasundi.

Eins og að fara til tannlæknis

Silja Bára segir sögurnar mjög misjafnar, og það sem einni hafi þótt erfitt hafi annarri fundist lítið mál. „Sumar sögurnar eru hreinlega hversdagslegar. Þessi reynsla er oft dramatíseruð í daglegri umræðu þar sem talað er um að hún sé sú erfiðasta sem kona gengur í gegnum. Það voru þó margar konur sem sögðu að þetta hefði verið eitthvað sem þær þurftu að gera eins og að fara til tannlæknis.“

Hún segir margar þó hafa verið ósammála þessu, og þótt reynslan öllu erfiðari. „Sumar sögurnar eru ofboðslega erfiðar og sárar og það er ljóst að þetta hefur verið erfið reynsla fyrir þessar konur að ganga í gegnum.“

Eftirsjáin situr eftir

Silja Bára segir hugsunina fyrst og fremst snúast um vald kvenna yfir eigin líkama. Við skrif bókarinnar og yfirferð frásagnanna hafi hugmyndin um eftirsjá þó helst setið eftir. „Það er oft ekki eftirsjá eftir að hafa farið í fóstureyðingu heldur eftirsjá eftir því að hafa ekki verið tilbúin til að eignast barn þó þeim hafi langað það,“ útskýrir hún og heldur áfram: „Að forgangsraða sjálfri sér og sínu lífi til að geta verið betri mæður þegar tíminn er réttur í stað þess að eignast barn þegar þær eru ekki tilbúnar til þess.“

Þá geti aðstæður kvenna sem finna fyrir eftirsjá verið mjög misjafnar; til dæmis geti veikindi, efnahagslegar ástæður, neysla eða aðrar þvingandi aðstæður haft mikið að segja. „Sögur þeirra eru ofboðslega áhugaverðar þó ég segi sjálf frá,“ segir Silja Bára.

Fóstureyðingar ekki frjálsar á Íslandi

Þær Silja Bára og Steinunn hafa skrifað fræðilegt samhengi fyrir fimmtán þemu sem þær túlka sögurnar í. Þar á meðal eru kaflar um heilbrigðiskerfið, frjósemi- og getnaðarvarnir, sjálfsákvörðunarrétt og skömm. Er þetta í fyrsta skipti hér á landi sem sögur af þessu tagi eru teknar saman, fyrir utan eitt skipti þegar teknar voru saman nokkrar sögur af reynslum kvenna af ólöglegum fóstureyðingum eða fóstureyðingum erlendis í tímariti Rauðsokka, Forvitin rauð, snemma á áttunda áratugnum.

„Það dró fram það sem konur lögðu á sig og var hluti af baráttu Rauðsokka fyrir frjálsum fóstureyðingum, sem skilaði reyndar ekki nákvæmlega því en það skilaði þeirri löggjöf sem við eigum í dag,“ útskýrir Silja Bára.

Fóstureyðingar eru ekki frjálsar á Íslandi, en fóstureyðingar eru eingöngu heimilar að fengnu samþykki tveggja fagaðila, lækna eða læknis og félagsráðgjafa, og þá vegna læknisfræðilegra eða félagslegra ástæðna – ekki einfaldlega að ósk konu. Framkvæmdin í dag er þannig að konu er ekki synjað um fóstureyðingu þótt hún neiti að gefa upp ástæðu.

Margt misvísandi í umræðunni

Þá bendir Silja Bára á bandarísku vefsíðuna 1 in 3, sem vísar til þess að ein af hverjum þremur konum fer í fóstureyðingu einhvern tímann um ævina. Á vefsíðunni er einnig vettvangur fyrir þessar konur til að segja sögur sínar. „Hún fór í loftið á svipuðum tíma og við vorum að hefja okkar söfnun og það er svipuð hugmynd. Það er svo mikilvægt að geta lesið reynslu annarra og speglað sig í því.“

Silja Bára segir þó ýmislegt misvísandi í umræðu um getnaðarvarnir hér á landi. „Þegar við vorum að vinna bókina skoðuðum við umræður um fóstureyðingar á Barnalandi og þar var mikið um heiftarleg viðbrögð og rangfærslur um réttindi og ferli. Það er mjög mikilvægt að hægt sé að leiðrétta slíka umræðu og þar af leiðandi er það okkar markmið þegar við höfum náð að fjármagna bókina að gera hana aðgengilega rafrænt,“ segir hún og bætir við að vonandi muni fólk geta nálgast hana ókeypis.

Skömmin svipuð drusluskömm

Þá segir hún viðbrögð samfélagsins ýta undir þá tilfinningu hjá konum að þær hafi eitthvað til að skammast sín fyrir eftir fóstureyðingu. Þessari skömm líkir hún við drusluskömm (e. slut-shaming) þar sem þolendum kynferðisofbeldis er kennt um ofbeldið fyrir að hafa hegðað sér eða klætt sig á ákveðinn hátt.

„Þarna er ábyrgðinni varpað á manneskjuna sem á ekki að bera hana,“ segir hún og bendir á algeng viðbrögð samfélagsins þar sem konum er sagt að þær hefðu átt að passa sig betur eða nota getnaðarvarnir. „Einn kafli bókarinnar er einmitt um getnaðarvarnir og þar er mjög ítarleg úttekt sem var í NY Times fyrir ári síðan og sýnir hvernig getnaðarvarnir virka. Pillan virkar til dæmis mjög vel á sumar konur og ef hún er tekin hundrað prósent og þær fá aldrei ælupest,“ segir hún og heldur áfram:

„Það þarf svo lítið til svo pillan klikki eða smokkur rifni og þá stendur kona sem er búin að gera allt rétt og passa sig vel en vill ekki eignast barn og er ekki í aðstæðum til þess uppi með viðbrögð eins og: „Þú hefðir átt að fara varlega.“ Hvað felst í því? Hefði hún ekki átt að stunda kynlíf? Við tölum um það sem náttúrulega hvöt og jafnvel grunnþörf svo þetta eru misvísandi skilaboð og mjög lík drusluskömminni,“ segir hún og bætir við að meðal markmiða bókarinnar sé að opna þessa umræðu og upplýsa almenning um að viðbrögð af þessu tagi geti beinlínis dregið úr lífsgæðum kvenna.

Tæplega þúsund konur á Íslandi fara í fóstureyðingu ár hvert, …
Tæplega þúsund konur á Íslandi fara í fóstureyðingu ár hvert, og um 30-40% íslenskra kvenna fara í fóstureyðingu einhvern tímann á lífsleiðinni. mbl.is/Rósa Braga
Sumir eru á móti fóstureyðingum af trúarlegum ástæðum, en Silja …
Sumir eru á móti fóstureyðingum af trúarlegum ástæðum, en Silja Bára segir fóstureyðingar snúast um vald kvenna yfir eigin líkama. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert