„Þetta er eins og að eiga börn á jólunum, að opna Elliðaárnar á sumrin með Stangaveiðifélaginu,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við opnunina í morgun. Hann var þar mættur ásamt Hönnu Guðrúnu Sigurjónsdóttur, Reykvíkingi ársins, sem fékk að eiga fyrsta kastið.
„Þetta er búið að vera sérstaklega hátíðleg opnun undanfarin ár því forveri minn í starfi byrjaði á því að tilnefna Reykvíking ársins af þessu tilefni og það er mér alveg sérstakur heiður að kynna Reykvíking ársins árið 2015 sem er Hanna Guðrún Sigurjónsdóttir,“ sagði Dagur fyrir framan viðstadda og kynnti Hönnu til leiks.
„Hún var tilnefnd af nágranna sínum í Kóngsbakka meðal annars með þeim orðum að hver einasta blokk þyrfti að eiga konu eins og hana. Hún er sögð vera leiðtogi í húsfélaginu og hefur kennt íbúum að flokka sorp og sjá til þess að allt sé fínt. Hún hugsar svo alltaf um náungann ef á þarf að halda.
Við sinntum svolitlu leyniþjónustuverkefni og könnuðum allan hennar bakgrunn og feril,“ sagði Dagur við kátínu viðstaddra.
Hanna er þroskaþjálfi sem vinnur í Fellaskóla og fær einstaklega góð meðmæli frá yfirmönnum sínum. Hún er öðrum þræði kannski ein af mörgum í stétt þroskaþjálfa og fjölmennum kvennastéttum sem vinna verk sín í hljóði. Hún vinnur vel með krökkunum við að koma þeim til manns og taka við þar sem atlæti okkar foreldra sleppir. Það er því sérstakur heiður að útnefna þig Reykvíking ársins,“ sagði Dagur áður en haldið var út í ána.