Flugvél Icelandair, sem var á leið til Heathrow-flugvallar við Lundúnir á Bretlandseyjum síðdegis á þriðjudag, þurfti skyndilega að hætta við lendingu í miðju aðflugi þar sem flugvélin sem var á undan vél Icelandair var of lengi að koma sér af brautinni.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að atvik sem þetta komi fyrir annað slagið á stórum flugvöllum á borð við Heathrow.
„Flugvélin er bara í aðflugi þegar flugumferðarstjórar biðja flugstjórann að taka einn aukahring,“ segir Guðjón en flugvélin var í 300 fetum þegar fyrirmælin bárust frá flugumferðarturninum. „Við þessar aðstæður er það flugumferðarstjórn sem ræður ferðinni og þetta er í sjálfu sér ekkert einsdæmi,“ segir hann og bætir við að engin hætta hafi verið á ferðum.