Ísland mest töfrandi land í heimi?

Paula Froelich naut sín á hestbaki á Íslandi.
Paula Froelich naut sín á hestbaki á Íslandi. Af vef Yahoo Travel

„Ísland er land þar sem töfrar gerast,“ skrifar Paula Froelich, ritstjóri ferðamála hjá hinni víðlesnu fréttaveitu Yahoo News í Bandaríkjunum, í nýlegri grein sinni um Ísland. Greinin hefur meðal annars birst á vef Huffington Post, en í henni fer Froelich fögrum orðum um landið.

Froelich segir ákvörðunina um að millilenda á Íslandi þegar hún var á leið til Grænlands á dögunum, hafa verið eina af bestu ákvörðunum sem hún hefur tekið á árinu. Ekki aðeins sé landið fallegt og töfrandi, heldur sé mun hagstæðara fyrir Bandaríkjamenn að versla hér en hún gerði sér grein fyrir vegna þess hve sterkur dollarinn er.

„Þarna býr töfrandi fólk - og þá á ég ekki við víkingarna sem þramma um götur Reykjavíkur (þrátt fyrir að þeir séu vissulega heillandi fyrir ykkur einhleypu konurnar þarna úti),“ skrifar hún. Á hún þar við álfa, tröll og huldufólk og bendir á könnun þar sem fram kemur að 72% Íslendinga trúi á slíkar verur. „Þau eiga að líta út eins og við en lifa í annarri vídd, inni í steinum sem opnast (fyrir þeim, ekki okkur) eins og í Harry Potter kvikmynd. Ég er ekki að skálda þetta. Þetta er í alvöru það sem fólk mun segja þér á Íslandi.“

Froelich segist þó vel skilja að fólk hér á landi trúi á álfa og töfra eftir að hafa eytt einni helgi á Íslandi. „Þetta er klikkuð (á besta hátt), lítil eyja með landslagi sem virðist ekki raunverulegt fyrir óþjálfað auga,“ skrifar hún og bendir á hraun, jökla, kletta, svartar stendur, fossa og fjöll sem séu engu lík. „Þetta er landslag sem hefur veitt þúsundum goðsagna innblástur og kemur hverju einasta ævintýri sem þú last sem barn upp í hugann.“

Þá ræddi hún við Ragnhildi Jónsdóttur í Álfagarðinum í Hellisgerði sem útskýrði fyrir henni mismunandi tegundir álfa og huldufólks. Ragnhildur, eða Ragga eins og Froelich kallar hana, kveðst oft sjá álfa og huldufólk.

Þá segir hún allt hafa sína sögu, og landið sé ólíkt öllu því sem hún hafi áður séð. „Þetta er staður þar sem ímyndunaraflið getur leikið lausum hala.“ Þá bendir hún á þrjá staði sem hún mælir með að fólk í tveggja daga millilendingum skoði, sem allir eru innan 77 kílómetra frá Reykjavík.

Fyrsti staðurinn sem hún nefnir er Seljalandsfoss, þar sem hún segir umhverfið minna á þrjár uppáhalds ævintýramyndirnar sínar; The NeverEnding Story, The Dark Crystal og Labyrinth. Þá hvetur hún fólk til að fara á hestbak á bænum Skálakoti í Skógum, en upplifunin hafi minnt hana á sjónvarpsþættina Game of Thrones. Loks nefnir hún Reynisfjöru og segir heimafólk hafa sagt sér að drangarnir hafi myndast þegar tröll urðu að steini við sólarupprás.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert