„Ekki er hægt að ímynda sér verri stað fyrir málmbræðslu, út frá hættu á jarðskjálftum. Lóðin er á barmi misgengisins norðan Húsavíkur, virkasta misgengi á Norðurlandi.“
Þetta segir Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands í Morgunblðinu í dag. Hann ræðir um iðnaðarsvæðið á Bakka norðan Húsavíkur þar sem PCC hefur ákveðið að reisa kísilver.
Í tillögum vísindamanna eftir umræður á ráðstefnu um jarðskjálftana út af Norðurlandi á árunum 2012 og 2013 var hvatt til frekari mælinga og rannsókna. Sérstaklega var fjallað um að endurmeta þyrfti jarðskjálftahættu á byggingarlóð kísilversins á Bakka í ljósi nýrra mæligagna. Lóðin væri á norðurbarmi misgengisins í Skjólbrekku norðan Húsavíkur og mun nær misgenginu en álverslóðin sem áður átti að byggja á.