Hætt við því að samningum verði sagt upp

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir

Alþýðusamband Íslands leggur áhersla á að losun gjaldeyrishafta ógni ekki efnahagslegum stöðugleika með gengisfalli, verðbólgu og kjararýrnun almenns launafólks. Í því sambandi bendir sambandið á að þeir kjarasamningar sem voru undirritaðir í lok maímánaðar byggi meðal annars á þeirri forsendu að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum.

Gangi það ekki eftir sé hætt við því að kjarasamningum verði sagt upp.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn ASÍ við haftafrumvörpum fjármálaráðherra.

Telur Alþýðusambandið mikilvægt að losa um þau höft á fjármagnsflutninga sem sett voru í kjölfar bankahrunsins. Með haftafrumvörpum ríkisstjórnarinnar séu stigin ákveðin skref í þá átt og því ber að fagna.

ASÍ leggur einnig áherslu á að staðið verði við alþjóðlegar skuldbindingar og að tryggt verði að þær ráðstafanir sem gripið verði til standist stjórnarskrá.

Auk þess vill ASÍ að þeir fjármunir sem koma í hlut ríkissjóðs eða Seðlabanka Íslands vegna afnámsferilsins verði nýttir til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs og þess þannig gætt að þeir valdi ekki óstöðugleika í hagkerfinu. Slíkt ráðstöfun spari ríkissjóði tugi milljarða árlega í vaxtagreiðslur og leggi þannig grunninn að því að við getum búið við öflugt velferðarkerfi til framtíðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert