„Þetta er klárlega brot á dýravernd og mannúðlegri meðferð á dýrum,“ segir Herdís Hallmarsdóttir, formaður Hundaræktarfélags Íslands (HRFÍ), um meðferð á hundum á árlegri hundaátshátíð í borginni Yulin í suðurhluta Kína.
Stjórn HRFÍ setti sig í samband við Kínverska Sendiráðið á Íslandi fyrir helgi og mótmælti hátíðinni, sem fer fram í dag, harðlega. Lýsti stjórnin yfir andúð á athæfinu og hvatti til þess að yfirvöld gripu í taumana „og stöðvuðu óhugnaðinn sem þarna ætti sér stað“. Auk þess setti stjórnin sig í samband við kínverska hundaræktarfélagið og lýsti afstöðu sinni til hátíðarinnar og hvatti félagið til að „berjast harkalega gegn þessum árlegu misþyrmingum“ og lýsti stuðningi við slíkri baráttu.
„Á þessum markaði er dýravernd algjörlega fótum troðin. Hundum er troðið í alltof lítil búr, þeir eru fláðir lifandi, þeir eru soðnir lifandi, þeir eru lamdir og barðir og það er ekki hægt að orða það öðruvísi en að þarna sé viðbjóðsleg meðferð á hundunum,“ segir Herdís og bætir við að einnig hafi verið fjallað um það í erlendum fréttamiðlum að mörg dýranna sem þarna séu hafi áður verið gæludýr sem hafi verið tekin ófrjálsri hendi af heimilum sínum.
Herdís segir lýðræðisleg ríki ekki eiga að líða slíka meðferð dýra og því hafi HRFÍ lýst yfir ímugust og andstyggð á þessu athæfi og hvatt kínversk stjórnvöld til að banna þennan markað. „Okkar hlutverk í hundaræktarfélaginu er að berjast gegn dýraníði hvar sem það viðgengst og þetta er partur af því.“
Rúmlega þrjár milljónir manna hafa skrifað undir áskorun til kínverskra yfirvalda um að leggja bann við markaðnum. „Það er víðfeðm andstyggð á þessum matarmarkaði og sem betur fer er alþjóðasamfélagið að fylgjast betur með því sem fer þarna fram og fordæma það,“ segir Herdís. „Þetta er árlegur viðburður og hann er hryllilegur. Þessa meðferð á húsdýrum og gæludýrum má rekja aftur til miðalda og hún er mjög ómannúðleg.“
Herdís segir þá staðreynd að Kínverjar neyti hundsins ekki réttlæta þá ómannúðlegu meðferð sem fram fari á markaðnum. „Við myndum aldrei líða svona meðferð, alveg sama hvernig á það er litið. Við lítum á hundinn sem gæludýr og besta vin mannsins en meðferðin sem þarna fer fram er hrottafengin og brýtur gegn öllu því sem við stöndum fyrir,“ segir hún.
Þá segir hún að ekki megi líta framhjá því að þarna sé ekki aðeins við Kínverja að sakast, heldur einnig þá ferðamenn sem sækja viðburðinn heim. „Þarna mæta ferðamenn og taka myndir og kaupa kjöt. Þetta er auðvitað gert í fjárhagslegum tilgangi en ef það væru engir gestir þá væri enginn markaður.“
Þá hafi erlendir aðilar einnig bent á að á markaðnum sé selt sýkt kjöt og þeir sem neyti þess geti smitast af hundaæði (e. rabies), sem sé mjög algengt í Kína. „Það sýnir að það er síður en svo heilnæmt að neyta þessara dýra, eins ógeðfellt og það er að tala um það þannig,“ segir Herdís.
Herdís segir að auk HRFÍ hafi norska hundaræktarfélagið sent kvörtun til alþjóðasamtaka hundaræktarfélaga (FCI) og lýst yfir andstyggð á þeirri meðferð sem hundar sæta á þessum markaði. Kínverska hundaræktarfélagið sé í þeim samtökum og því voni hún að kvörtunin komist áleiðis.
HRFÍ hefur ekki fengið svar frá kínverskum yfirvöldum né hundaræktunarfélaginu í Kína, en Herdís segist þó vona að kínversk stjórnvöld muni bæta dýravernd og gæta þess að það verði sómasamlega farið með dýrin.
Þá segir hún mikilvægt að taka fram að þarna eigi málleysingjar í hlut sem mjög brýnt er að eigi sér málsvara og rödd. „Við getum ekki skipað öðrum þjóðum fyrir hvaða dýrum þau eiga að neyta en það er hægt að hafa skoðun á því þegar dýravernd er fótum troðin.“
HRFÍ hvetur alla þá sem þykir vænt um hundinn að skrifa undir áskorunina til kínverskra stjórnvalda sem má finna hér.