198 hafa sagt upp á Landspítalanum

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

198 heil­brigðis­starfs­menn hafa sagt upp störf­um á Land­spít­al­an­um að und­an­förnu, þar af 167 hjúkr­un­ar­fræðing­ar. Páll Matth­ías­son, for­stjóri spít­al­ans, seg­ir ástandið al­var­legt en von­ast til þess að samn­ingsaðilar fari að ná sátt­um.

„Það er ljóst að það yrði flókið verk­efni ef við þurf­um að tak­ast á við að missa fólk úr þess­um mik­il­vægu fag­stétt­um. Við mun­um tak­ast á við það verk­efni ef sú verður reynd­in en það er ekki tíma­bært að vinna neyðaráætl­un núna,“ seg­ir Páll og bæt­ir við að upp­sagna­frest­ur­inn séu þrír mánuðir. 

Flest­ar upp­sagn­irn­ar eru á aðgerða- og skurðlækn­inga­sviði. Þar af hafa um 20% þeirra sem starfa á aðgerðasviði sagt upp.

Páll seg­ir fram­kvæmda­stjórn spít­al­ans taka upp­sögn­un­um mjög al­var­lega, en þó vona að samn­ingsaðilar nái sam­an og starfs­fólk­inu snú­ist hug­ur. Ef svo verði ekki geti af­leiðing­arn­ar orðið al­var­leg­ar. „Það yrði al­var­legt. Við vilj­um alltaf vera að byggja upp með fleira fólki. En við mynd­um bara tak­ast á við það og leita leiða til að bregðast við svo ör­yggi og þjón­usta væru tryggð,“ seg­ir hann.

Boðað hef­ur verið til fund­ar í kjara­deil­unni á morg­un, en það er fyrsti fund­ur hjúkr­un­ar­fræðinga og rík­is­ins síðan 10. júní. Eins og fram hef­ur komið setti rík­is­stjórn­in lög á verk­fall Banda­lags há­skóla­manna og Fé­lags ís­lenskra hjúkr­un­ar­fræðinga fyrr í mánuðinum. Páll seg­ir ólgu ríkja vegna laga­setn­ing­ar­inn­ar. „Þetta er skrýt­in blanda af reiði, dep­urð og létti yfir því að fólkið sé komið til baka til vinnu,“ út­skýr­ir hann.

Páll seg­ir starf­sem­ina þó nú vera að fær­ast í rétt horf. „Nú er að vísu sum­ar­leyf­is­tím­inn framund­an, sér­stak­lega júlí, og þá fer starf­sem­in yfir í sum­arfasa. Það er þó byrjað að kort­leggja biðlista og skoða hvernig við get­um unnið þá niður en það verður ekki byrjað á því fyrr en eft­ir sum­ar­leyf­is­tím­ann og þá er ljóst að við mun­um þurfa aukið fjár­magn til að keyra hraðar niður þann kúf sem hef­ur mynd­ast,“ seg­ir hann.

Aðspurður um það hvort þetta komi til með að bitna al­var­lega á sjúk­ling­um seg­ir hann ör­yggi sjúk­linga alltaf sett í for­grunn. „Það er auðvitað al­var­legt ef fólk þarf að bíða lengi en það er alltaf verið að for­gangsraða með ör­yggi sjúk­linga til hliðsjón­ar og við höld­um því áfram. Við eig­um auðveld­ara með það núna því starfs­fólk er komið til baka,“ seg­ir Páll.

Þá seg­ir hann að nú sé unnið eft­ir áætl­un með það að sjón­ar­miði að vinna niður biðlist­ana sem mynduðust í verk­fall­inu. „Við vilj­um kapp­kosta að það ger­ist eins fljótt og við ráðum við,“ seg­ir Páll en bæt­ir við að til lengri tíma sé nauðsyn­legt að ná sátt á milli aðila til að geta haldið áfram að byggja upp heil­brigðis­kerfið. „Við verðum að biðla til aðila að ná samn­ing­um.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­ala.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka