198 hafa sagt upp á Landspítalanum

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

198 heilbrigðisstarfsmenn hafa sagt upp störfum á Landspítalanum að undanförnu, þar af 167 hjúkrunarfræðingar. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, segir ástandið alvarlegt en vonast til þess að samningsaðilar fari að ná sáttum.

„Það er ljóst að það yrði flókið verkefni ef við þurfum að takast á við að missa fólk úr þessum mikilvægu fagstéttum. Við munum takast á við það verkefni ef sú verður reyndin en það er ekki tímabært að vinna neyðaráætlun núna,“ segir Páll og bætir við að uppsagnafresturinn séu þrír mánuðir. 

Flestar uppsagnirnar eru á aðgerða- og skurðlækningasviði. Þar af hafa um 20% þeirra sem starfa á aðgerðasviði sagt upp.

Páll segir framkvæmdastjórn spítalans taka uppsögnunum mjög alvarlega, en þó vona að samningsaðilar nái saman og starfsfólkinu snúist hugur. Ef svo verði ekki geti afleiðingarnar orðið alvarlegar. „Það yrði alvarlegt. Við viljum alltaf vera að byggja upp með fleira fólki. En við myndum bara takast á við það og leita leiða til að bregðast við svo öryggi og þjónusta væru tryggð,“ segir hann.

Boðað hef­ur verið til fundar í kjaradeilunni á morg­un, en það er fyrsti fundur hjúkrunarfræðinga og ríkisins síðan 10. júní. Eins og fram hefur komið setti rík­is­stjórn­in lög á verk­fall Banda­lags há­skóla­manna og Fé­lags ís­lenskra hjúkr­un­ar­fræðinga fyrr í mánuðinum. Páll segir ólgu ríkja vegna lagasetningarinnar. „Þetta er skrýtin blanda af reiði, depurð og létti yfir því að fólkið sé komið til baka til vinnu,“ útskýrir hann.

Páll segir starfsemina þó nú vera að færast í rétt horf. „Nú er að vísu sumarleyfistíminn framundan, sérstaklega júlí, og þá fer starfsemin yfir í sumarfasa. Það er þó byrjað að kortleggja biðlista og skoða hvernig við getum unnið þá niður en það verður ekki byrjað á því fyrr en eftir sumarleyfistímann og þá er ljóst að við munum þurfa aukið fjármagn til að keyra hraðar niður þann kúf sem hefur myndast,“ segir hann.

Aðspurður um það hvort þetta komi til með að bitna alvarlega á sjúklingum segir hann öryggi sjúklinga alltaf sett í forgrunn. „Það er auðvitað alvarlegt ef fólk þarf að bíða lengi en það er alltaf verið að forgangsraða með öryggi sjúklinga til hliðsjónar og við höldum því áfram. Við eigum auðveldara með það núna því starfsfólk er komið til baka,“ segir Páll.

Þá segir hann að nú sé unnið eftir áætlun með það að sjónarmiði að vinna niður biðlistana sem mynduðust í verkfallinu. „Við viljum kappkosta að það gerist eins fljótt og við ráðum við,“ segir Páll en bætir við að til lengri tíma sé nauðsynlegt að ná sátt á milli aðila til að geta haldið áfram að byggja upp heilbrigðiskerfið. „Við verðum að biðla til aðila að ná samningum.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert