Mikið hefur verið rætt um verðhækkanir í kjölfar núverandi lotu kjarasamninga. Viðskiptavinur Reynis Bakara í Kópavogi tók nýverið eftir milli 7 og 20% hækkun á brauði þar. Reynir Þorleifsson bakari sver þó fyrir það í samtali við blaðamann að hækkunin sé til komin vegna nýlegra kjarasamninga.
Hann hafi ekki hækkað hjá sér verð síðan 2012, reksturinn hafi verið orðinn þungur og þá þurfi hann að leita einhverra ráða.
Aðrir í bakarabransanum voru ekki vongóðir um að komast hjá hækkunum. Björn Jónsson hjá Myllunni sagði ekki vera búið að taka ákvörðun þar um verðbreytingar. Ljóst væri samt sem áður að laun væru það stór kostnaðarliður að launahækkanir hlytu að koma fram í verðinu á endanum.
Jói Fel hjá samnefndu bakaríi segir að þar á bæ hafi verð ekki verið hækkað í kjölfar kjarasamninga. Ákvörðun um það liggi ekki fyrir enn en hann tekur undir orð Björns, að launakostnaður sé það hátt hlutfall veltu að erfitt sé að komast hjá hækkunum.