„Töldum að það yrði ekki lengra farið“

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að samninganefndir iðnaðarmannafélaganna og Samtaka atvinnulífsins hafi á undanförnum dögum, þegar verkföll vofðu yfir, reynt að sameinast um að finna lausn á kjaradeilunni. 

Hann segist í samtali við mbl.is vera nokkuð sáttur með samninginn sem var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara á áttunda tímanum í kvöld.

Stétt­ar­fé­lög­in sem skrifuðu undir kjarasamningana eru Fé­lag hársnyrti­sveina, Grafía/​FBM, Matvís, Rafiðnaðarsam­band Íslands, Samiðn og Fé­lag vél­stjóra og málm­tækni­manna (VM).

„Maður má kannski aldrei vera ánægður í svona vinnu, en það er eins í þessu og öllu öðru að menn koma að einhverjum tímapunkti að þeir telja sig ekki geta komist lengra. Og þá tókum við ákvörðun um það að skrifa undir samninginn. Síðan verður hann bara settur í dóm félagsmanna sem kjósa um það hvort hann verði samþykktur eða felldur.

Á þessum tímapunkti töldum að það yrði ekki lengra farið í bili,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Með undirritun samninganna tókst að afstýra verkföllum félaganna sem hefðu að óbreyttu skollið á á miðnætti.

Guðmundur segir að menn hafi „sest þyngra yfir hlutina“ þegar nær dró boðuðum verkföllum. 

„Fjarlægðin gefur mönnum meira svigrúm til að vera harðir, en þegar nær dregur þá þurfa menn að sameinast um það að reyna með einhverjum hætti að leysa vandamálin,“ nefnir hann.

Hann segir að næsta skref sé að kynna félagsmönnum VM samninginn en í kjölfarið greiða þeir atkvæði um hann. Á niðurstaðan að liggja fyrir 15. júlí næstkomandi.

Tekist í hendur eftir undirritun samninga.
Tekist í hendur eftir undirritun samninga. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert