„Það sem er að gerast hér í okkar samfélagi er það að 198 heilbrigðisstarfsmenn eru búnir að segja upp störfum vegna laga sem sett voru á þá fyrir skömmu síðan. 167 af þeim eru hjúkrunarfræðingar. Er einhver að ræða þetta hér á Alþingi? - Nei, það hefur enginn áhuga á því.“
Þetta sagði Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, við upphaf máls síns á Alþingi í dag. Til umræðu var dagskrárliðurinn störf þingsins.
Katrín sagði stjórnarandstöðuna ítrekað, eða í þrjá mánuði, hafa boðið ríkisstjórnarflokkunum á þingi að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem nú er uppi innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Sagði Katrín hins vegar ríkisstjórnina ekki hafa áhuga á því.
„Það eru komnir langir biðlistar í heilbrigðiskerfinu sem þarf að taka á og forstjóri Landspítalans sagði við okkur hér í gær að það muni kosta verulega fjármuni. Er einhver að tala um það hér? - Nei, það er ekkert verið að tala um það hér,“ sagði hún.
Velti Katrín því næst upp þeirri spurningu hvort menn væru með einhverjar áætlanir um hvernig bregðast eigi við þessu ástandi eða hvort menn hefðu í hyggju að kynna slíkar áætlanir fyrir þinginu. „Nei það er enginn að því. Menn eru ekkert að gera í þessum málum og hafa engan áhuga á því.“
Samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga mætti í morgun til fundar við samninganefnd ríkisins vegna kjaradeilunnar. Seinast var fundað hinn 10. júní síðastliðinn.
„Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hvers konar stjórnvöld eru þetta sem við erum með í þessu landi? [Stjórnvöld] sem eru að keyra heilbrigðiskerfið í svaðið með þessari framkomu gagnvart starfsfólkinu sem heldur því uppi. Við erum með starfsfólk á heimsmælikvarða - sem getur farið hvert sem það vill til þess að starfa. Og hvað gerum við? - Við sýnum því vanvirðingu, tölum ekki við það svo vikum og mánuðum skiptir og svo setjum við lög á þau.“
Að endingu sagði Katrín löngu orðið tímabært að þingið einbeiti sér að þeim málefnum sem skipta máli.