Allsherjar- og menntamálanefnd hefur að undanförnu fjallað um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Með frumvarpinu er lagt til að 125. gr. almennra hegningarlaga um guðlast falli brott og leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
Grein sú sem um ræðir er svohljóðandi: „Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum. Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.“
Fram kemur í nefndarálitinu að markmið frumvarpsins sé að fella brott „lagaákvæði sem er á skjön við ríkjandi viðhorf til mannréttinda hér á landi.“ Að auki sé verið að bregðast við „gagnrýni alþjóðastofnana á þau ákvæði íslenskrar löggjafar sem þykja ganga gegn tjáningarfrelsi. Þannig lýsti erindreki Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) yfir áhyggjum af takmörkunum á tjáningarfrelsi á Íslandi í nóvember 2013 og sérstaklega því að dæma megi fólk í fangelsi fyrir ólögmæta tjáningu.“
Þá hefur Evrópuráðið meðal annars einnig ályktað að „rétt sé að ríki endurskoði refsiákvæði vegna ærumeiðinga, enda sé ekki rétt að hafa ákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi í refsilöggjöf,“ segir í áliti allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefndin fékk á sinn fund nokkra álitsgjafa auk þess sem fjölmargir aðilar sendu nefndinni umsögn um frumvarpið. Flestir þeirra taka undir þau sjónarmið sem liggja að baki frumvarpsins og mæla með samþykkt þess.
Nokkrir umsagnaraðilar eru hins vegar andvígir samþykkt frumvarpsins. „Í umsögn Berunessóknar kemur fram sú afstaða að ákvæði 125. gr. feli í sér aðhald sem þurfi að vera til staðar og í umsögnum Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu er vísað til trúfrelsisákvæða stjórnarskrár og áhyggjum lýst af því að með samþykkt frumvarpsins verði opnað á að smána megi safnaðarmeðlimi trúfélaga þeim til háðs og minnkunar,“ segir í áliti nefndar.
Allsherjar- og menntamálanefnd bendir hins vegar á í áliti sínu að ákvæði 233. gr. almennra hegningarlaga nái fyllilega yfir hatursorðræðu og hatursáróður. En greinin er svohljóðandi: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Leggur nefndin því til að frumvarp þetta verði samþykkt óbreytt.