Fundi í atvinnuveganefnd var frestað í kvöld eftir að rætt hafði verið um breytingatillögu sjávarútvegsráðherra á makrílfrumvarpinu. Engin niðurstaða var af fundinum, en lögfræðingur ráðuneytisins fór djúpt í málið og þýðingu þess með nefndarmönnum. Áfram er þó mikil gagnrýni á frumvarpið og ekki útlit fyrir að þessi breyting muni hafa áhrif á samkomulag um þinglok. Þetta segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður atvinnuveganefndar, í samtali við mbl.is
Lilja segir að Vinstri grænir horfi enn til þess að frumvarpið þurfi lengri meðgöngu og að bíða eigi með það til haustþings. Segir hún að þingflokkurinn sé því mótfallinn að setja makríl í núverandi kvótakerfi.
Hún segist ekki geta tjáð sig fyrir aðra flokka en sinn eigin, en að enn sé mikil gagnrýni á hvernig reynt sé að fara með málið í gegn og án þess að fá nægjanlega umfjöllun allra hluteigandi aðila. Segir hún að með því að samþykkja frumvarpið fari makríllinn inn í kvótakerfið og að það sé stór breyting og skapi grundvöll undir frekari væntingar þeirra sem fengju þar með makrílhlutdeild til áframhaldandi hlutdeildar í makríl.
Aðspurð hvort að hún telji þetta skref sjávarútvegsráðherra muni hjálpa til við samkomulag um þinglok segir Lilja að henni sýnist svo ekki vera.