Ríkisendurskoðun hefur hvatt velferðarráðuneytið til að móta heildstæða stefnu vegna einstaklinga með skerta starfsgetu. Þar komi m.a. fram skýr markmið, aðgerðaáætlun og mælikvarðar á árangur. Þetta kemur fram á vef Ríkisendurskoðunar.
Þar segir jafnframt að stofnunin hafi hvatt ráðuneytið til að setja reglur um eftirlit sitt með kaupum VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs á þjónustu fyrir þennan hóp. Sjóðurinn fjármagnar kaup á endurhæfingarþjónustu fyrir þennan hóp, en ríkissjóður ásamt atvinnurekendum og lífeyrissjóðum greiða kostnað vegna hennar.
Árið 2012 birti Ríkisendurskoðun skýrslu þar sem settar voru fram samtals fjórar ábendingar til velferðarráðuneytis um úrbætur á þessu sviði. Í nýrri eftirfylgniskýrslu Ríkisendurskoðunar kemur hins vegar fram að nú þremur árum síðar hafi ráðuneytið ekki mótað heildstæða stefnu um málefni þessa hóps né sett reglur um eftirlit með kaupum VIRK - Starfsendurhæfingarjóðs á þjónustu. Ábendingar um þessi atriði eru því ítrekaðar.
Þar kemur þó jafnframt fram að ráðuneytið hafi brugðist þannig við hinum tveimur af þessum ábendingum að ekki þyki ástæða til að ítreka þær. Ráðstafanir hafi verið gerðar til að stuðla að því að vinnuveitendur komi til móts við fólk með skerta starfsgetu og til að auka samfellu í endurhæfingarferlinu.