Viðræður standa nú yfir milli stjórnarflokkanna og þingflokksformanna allra flokka, en enn er ekkert komið í höfn varðandi samkomulag um þinglok. Þrátt fyrir góðan gang er ólíklegt að samkomulag náist í kvöld. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is
Í kvöld hefst þingfundur að nýju klukkan átta, en honum hefur verið frestað nokkrum sinnum í dag. Einar segir að þar verði tekin fyrir mál sem nokkur sátt ríki um. Þannig sé ekki á dagskrá umdeildari frumvörp eins og makrílfrumvarpið eða nýtingaflokkur mögulegra virkjana. Segir hann heimild til að halda fundi til miðnættis og það verði væntanlega gert.
Fram kom í kvöld að sjávarútvegsráðherra hefði lagt fyrir atvinnuveganefnd breytingatillögu við makrílfrumvarpið þannig að kvótasetning yrði aðeins til eins árs í stað þriggja áður. Aðspurður hvort slík breyting hefði áhrif á samkomulag um þinglok sagði Einar að enn væri ekkert í höfn í þeim málum, en að viðræður stæðu yfir.