Forstjóri Barnaverndarstofu sýknaður af meiðyrðakröfu

Úr dómsal. Myndin er úr safni.
Úr dómsal. Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, var sýknaður af meiðyrðakröfu Týs Þórarinssonar sem rak Götusmiðjuna í Héraðsdómi Reykjavíkur. Upphaflega var Bragi dæmdur fyrir meiðyrðin en málið var tekið upp aftur þar sem hann vissi ekki af stefnunni gegn sér þegar málið var fyrst þingfest.

Týr krafðist þess að átta ummæli sem höfð voru eftir Braga á Vísi og RÚV yrðu dæmd dauð og ómerk. Hann rak meðferðarheimili Götusmiðjunnar að Brúarholti. Þar var boðið upp á meðferð fyrir börn og ungmenni. Heimilinu var lokað að beiðni barnaverndaryfirvalda, 25. júní árið 2010.

Í fréttum sem birtar voru á Vísi og á RÚV.is, 25. og 26. júní, voru höfð eftir Braga átta ummæli sem Týr vildi ómerkja. Meðal annars sagði Bragi að stjórnunarvandi hefði verið á meðferðarheimilinu, vandinn bitnað á meðferðinni og samskipti Týs við unglinga farið yfir öll velsæmismörk. Þá hafi Týr atað starfsmann óhróðri, hótað börnum líkamsmeiðingum og enginn vinnufriður verið fyrir honum.

Í niðurstöðu sinni bendir héraðsdómur á að umfjöllun fjölmiðla um málið verði talin hluti af þjóðfélagsumræði sem erindi hafi átt við almenning og Braga hafi því bæði verið rétt og skylt að svara spurningum um málið. Týr hafi sjálfur komið því á framfæri með yfirlýsingum til fjölmiðla að málið varðaði hann sjálfan. Þá hafi ummæli Braga að hluta verið gildisdómar sem ekki verði sannaðir eða afsannaðir.

Héraðsdómur sýknaði Braga því af kröfum Týs og var sá síðarnefndi dæmdur til að greiða Braga 600.000 krónur í málskostnað.

Innanríkisráðuneytið hafði samþykkt að veita Tý gjafsókn og greiddist því allur kostnaður málsins og málflutningsþóknun lögmanns hans sem ákveðin er 600.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti úr ríkissjóði.

Bragi vissi ekki af stefnunni

Málið var tekið upp að nýju að kröfu verjanda Braga eftir að héraðsdómur hafði áður dæmt Tý í vil. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að Bragi hafi ekki mætt við þingfestingu málsins þar sem hann hafi ekki vitað af málinu gegn sér. Stefnan hafi verið skilin eftir á vinnustað hans á meðan hann var erlendis. Á umslaginu kom ekki fram að um stefnu væri að ræða né upplýsingar um síðasta birtingardag.

Héraðsdómur segir að ekki sé hægt að útiloka að ekki hafi þurft að koma til endurupptöku hefði Týr gætt þess frá upphafi að afhenda stefnuvotti umslag fyrir samriti stefnu í lögboðnu horfi. Þá hafi hann valdið óþörfum drætti á málinu, annað hvort af ásetningi eða handvömm, með því að mótmæla beiðni um endurupptöku.

Fyrri frétt mbl.is: Bragi dæmdur fyrir meiðyrði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert