Makríllinn fer í umsagnarferli

Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samþykkt var einróma í atvinnuveganefnd Alþingis í morgun að setja makrílfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í umsagnarferli í ljósi þeirra breytinga sem ráðuneyti hans hefur gert á því. Þar er meðal annar gert ráð fyrir að makrílkvóta verði úthlutað til eins árs í senn í stað þriggja eins og áður var gert ráð fyrir.

Þetta staðfestir Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í atvinnuveganefnd. Hann lagði fram tillögu þess efnis að málið yrði sent út til umsagnar ásamt Lilja Rafney Magnúsdóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Eldari Ástþórssyni, varaþingmanni Bjartrar framtíðar.

„Við lögðum til að málið yrði sent út til umsagnar til hagsmunaaðila og annarra sem það varðar. Við lögðum til því yrði gefinn hefðbundinn tveggja vikna tími en fallist var á að gefa því viku. Nú fer þessi breytingatillaga við frumvarpið út til umsagnar og allir geta sent inn umsögn um það. Nefndin mun síðan taka málið fyrir þegar fresturinn til umsagna er liðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert